143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

starfsmannamál RÚV.

[16:08]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er nefnilega þannig að höggið er sárast á Rás 1 og það er óumdeilt að Rás 1 hefur stundað mjög metnaðarfulla dagskrárgerð. Þarna er líka verið að skerða og taka í burtu mjög mikilvæga útvarpsþjónustu fyrir heilu kynslóðirnar, sem eru töluvert eldri en ég. Ég veit hve mikilvægt er, t.d. fyrir fólk sem býr á elliheimilum, að geta hlustað á Rás 1. Ég er mikill aðdáandi Rásar 1, ég hef fengið að læra margt um lífið og tilveruna með því að hlusta reglulega á hana.

En það er fleira undir. Ég leyfi mér að gagnrýna það hér hvernig staðið var að þessum uppsögnum. Mér finnst átakanlegt að lesa lýsingarnar. Ég ætla aðeins að vitna í grein sem birtist, með leyfi forseta, í DV 3. desember. Þar stendur:

„Tölvupósti starfsmannanna brottreknu var til að mynda lokað strax og þeir voru teknir út af facebook-síðu starfsmanna stofnunarinnar. Olli sú aðgerð sárindum hjá starfsfólki.“

Síðan réttlætir starfsmannastjóri RÚV þessar harkalegu aðgerðir sem mér finnst mjög furðulegt; og ég veit að sá hinn sami hefur áheyrnarstöðu í stjórninni. Ég veit að í fyrsta lagi er ekki verið að spara neina peninga með því að leyfa fólki ekki að klára þættina sína og halda áfram að vinna. Það á ekki að tíðkast hér í okkar litla samfélagi að loka svona á fólk. Það er með öllu ólíðandi að Ríkisútvarpið, af öllum starfsstöðum hérlendis, taki upp vinnubrögð af þessu tagi. (Forseti hringir.)

Mig langar að spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvort honum finnist þetta eðlilegar aðferðir við að segja fólki upp eftir áratugastarf í þágu þessa mikilvæga fjölmiðils.