143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

starfsmannamál RÚV.

[16:10]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra notaði því miður stærstan hluta ræðutíma síns hér í að útmála það hve fyrri ríkisstjórn hefði þrengt mikið að Ríkisútvarpinu, fór í sérstakar reiknikúnstir til að koma því upp í milljarð á núverandi verðlagi; sem fyrrverandi menntamálaráðherra reyndar vefengdi og mótmælti. En trúi hæstv. ráðherra sínum eigin orðum hlýtur spurningin að vakna: Var þá ekki nóg að gert? Þessi málflutningur dugar ekki, að vera svona upptekinn af því hve mikið hafi verið búið að þrengja að Ríkisútvarpinu á fyrri árum. Og vissulega var það gert og vissulega voru þá erfiðir tímar, en maður hefði haldið að menn teldu það nóg ef þeir eru búnir að hafa fyrir því að reyna að reikna þetta upp í allar þær hæðir sem þeir mögulega geta.

Hæstv. ráðherra vísaði í þjónustusamning og nú þurfi að endurskoða hann. En, herra forseti, þjónustusamningur býr ekki til peninga, það er bara plagg, það er bara svona hvítur pappír, það eru ekki seðlar. Þar telur hæstv. ráðherra að eigi að endurskilgreina hlutverk Ríkisútvarpsins, í þjónustusamningi eftir niðurskurðinn og eftir að búið er að fara til dæmis með Rás 1 eins og raun ber vitni.

Lögin skilgreina hlutverk Ríkisútvarpsins og ef þau eru framkvæmd þarf ekki mikið meira til. Það er því miður þannig að á ótrúlega stuttum starfstíma hæstv. núverandi menntamálaráðherra hafa málefni Ríkisútvarpsins aftur komist í upplausn, hreina upplausn, og er þetta þó líklega eina málið sem hæstv. ráðherra hefur flutt, þ.e. um að ryðja stjórn útvarpsins hér í vor.

Hæstv. ráðherra segist bera fullt traust til stjórnarformanns og útvarpsstjóra. Þýðir það fullt traust og samþykki við þessum aðgerðum, þar með talið meðferðinni á Rás 1? Telur hæstv. ráðherra þar með að menningar- og öryggishlutverki Ríkisútvarpsins sé sinnt eftir þetta í samræmi við lög? Er það í lagi að það sé engin fréttamiðlun á nóttunni? Hefur hæstv. ráðherra prófað að vakna fyrir klukkan 6 núna þessa morgna (Forseti hringir.) og hlusta á hina vandræðalegu tilkynningu: Nei, því miður, engar fréttir vegna niðurskurðar?