143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

Orkuveita Reykjavíkur.

178. mál
[16:37]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Án mikils undirbúnings var lögum um Orkuveitu Reykjavíkur breytt á sínum tíma með þeim hætti að Orkuveitunni var heimilt að fara í alls óskyldan rekstur. Síðan eru margir milljarðar farnir sem munu aldrei koma aftur. Ég hef áhyggjur af því að við séum ekki að laga þetta hér. Í frumvarpinu eins og það liggur fyrir eiga dótturfélög Orkuveitu Reykjavíkur að stunda gagnaveitu sem er til dæmis samkeppnisrekstur og sömuleiðis eru þarna mjög opin ákvæði. Til dæmis getur starfsemin nýtt rannsóknir í þekkingu og búnað fyrirtækjanna. Af því að hugmyndaauðgin er stundum mikil geta menn væntanlega nýtt risastórt eldhús Orkuveitunnar í samkeppnisrekstri um mat á höfuðborgarsvæðinu og jafnvel víðar á landinu. Ég segi þetta af gildri ástæðu, ég hef séð mjög mikla hugmyndaauðgi í því að nýta fjármuni Orkuveitunnar í allra handa óskyldan rekstur. (Forseti hringir.)

Hv. atvinnuveganefnd ætlar að skoða þetta mál á milli (Forseti hringir.) umræðna. Ég treysti því að bragarbót verði gerð á þessu og þetta lagað. Þess vegna styð ég að þetta fari áfram. (Gripið fram í.)