143. löggjafarþing — 32. fundur,  4. des. 2013.

meðhöndlun úrgangs.

215. mál
[16:49]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs. Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs.

Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar vegna innleiðingar á tilskipun 2008/98/EB, um úrgang og niðurfellingu tiltekinna tilskipana.

Í öðru lagi er með frumvarpinu lagðar til breytingar á framleiðendaábyrgð á rafhlöðum og rafgeymum, raf- og rafeindatækjum og drykkjarvöruumbúðum.

Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á lögum nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, og lagt til að lög nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, verði felld úr gildi.

Við undirbúning frumvarpsins var haft víðtækt samráð við önnur stjórnvöld og hagsmunaaðila, m.a. Umhverfisstofnun, Úrvinnslusjóð, Samtök atvinnulífsins, Samband íslenskra sveitarfélaga, Sorpu bs., Endurvinnsluna hf., Gámaþjónustuna, Íslenska gámafélagið, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.

Með hliðsjón af ákvæðum tilskipunar 2008/98/EB er lagt til í frumvarpinu að markmið laga um meðhöndlun úrgangs verði þau að lögin skuli vernda umhverfið og heilsu manna með því að koma í veg fyrir eða draga úr óæskilegum áhrifum sem myndun og meðhöndlun úrgangs hefur og með því að minnka heildaráhrif af henni og bæta nýtingu auðlinda.

Þá er lagt til með hliðsjón af greiðslureglu umhverfisréttarins að heimild sveitarfélaga til að innheimta gjald við meðhöndlun úrgangs verði breytt í skyldu.

Í frumvarpinu er lögð til ákveðin forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs hér á landi, m.a. við stefnumótun og áætlanagerð í málaflokknum. Hún felur það í sér að dregið verði úr myndun úrgangs og sá úrgangur sem myndast verði undirbúinn fyrir endurnotkun, endurunninn, endurnýttur og loks fargað ef ekki reynist unnt að nýta hann.

Með frumvarpinu er lögð áhersla á að líta skuli á úrgang sem hráefni. Í samræmi við forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs skal því forðast að farga úrgangi svo sem með urðun og þess í stað stuðla að endurnotkun og endurvinnslu hans. Lögð er til breyting á áætlanagerð ríkis og sveitarfélaga um meðhöndlun úrgangs og gert ráð fyrir að ráðherra gefi út almenna stefnu um meðhöndlun úrgangs til að bæta endurnotkun, endurnýtingu og förgun og forvarnir á sviði úrgangsmála. Þá er lagt til að svæðisáætlanir sveitarfélaga komi í stað landsáætlunar ráðherra um meðhöndlun úrgangs.

Til að auka flokkun á úrgangi og til að hann sé endurunninn í meira mæli er lagt til að komið verði á sérstakri söfnun m.a. á pappír, málmum, plasti, gleri og gert er ráð fyrir að unnt verði að losa slíkan úrgang á aðgengilegan hátt. Með því móti styður frumvarpið við þróun um aukna flokkun úrgangs sem þegar hefur átt sér stað hjá sveitarfélögum og fyrirtækjum, endar er vaxandi krafa frá almenningi og fyrirtækjum um að flokkun úrgangs verði aukin frá því sem nú er.

Þá er aukin áhersla lögð á fræðslu til almennings og að Umhverfisstofnun og sveitarfélög hafi aukið hlutverk í því sambandi.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á framleiðendaábyrgð vegna rafhlaðna og rafgeyma. Lagt er til að Umhverfisstofnun í stað Úrvinnslusjóðs reki skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda rafhlaðna og rafgeyma, en stofnunin rekur nú þegar skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda raf- og rafeindatækja.

Þá er kveðið á um skráningarskyldu framleiðenda og innflytjenda og greiðslu á gjaldi vegna skráningarkerfisins. Gert er ráð fyrir að Umhverfisstofnun hafi eftirlit með framkvæmdinni.

Einnig eru lagðar til breytingar á framleiðendaábyrgð vegna raf- og rafeindatækja. Lagt er til að úrvinnslugjald verði lagt á raf- og rafeindatæki og að Úrvinnslusjóður sjái um að tryggja söfnun og meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs sem og að ná lágmarksmarkmiðum um undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu, endurnýtingu, söfnun og förgun raf- og rafeindatækjaúrgangs.

Þá er í frumvarpinu lagt til að tekin verði upp framleiðendaábyrgð drykkjarvöruumbúða, m.a. með hliðsjón af aukinni áherslu á framleiðendaábyrgð á sviði úrgangsmála. Gert er ráð fyrir að ábyrgðin verði útfærð með svipuðum hætti og framleiðendaábyrgð á raf- og rafeindatækjum, þó einfaldari. Lagt er til að framleiðandi og innflytjandi drykkjarvöruumbúða beri ábyrgð á þeim drykkjarvöruumbúðum sem framleiddar eru hér á landi eða fluttar inn og eru settar á markað og seldar hér á landi. Í þessari ábyrgð felst að þeir skuli fjármagna og tryggja meðhöndlun drykkjarvöruumbúða. Framleiðendur og innflytjendur drykkjarvöruumbúða skulu uppfylla skyldur sínar með rekstri eigin skilakerfis fyrir drykkjarvöruumbúðir eða með aðild að sameiginlegu kerfi fleiri framleiðenda og innflytjenda. Skilakerfi starfa að lágmarki á tilteknum landsvæðum og taka á móti drykkjarvöruumbúðum og sjá um greiðslu skilagjalds. Gert er ráð fyrir að Umhverfisstofnun haldi utan um skráningarkerfið, gefi út leyfi fyrir skilakerfi og hafi eftirlit með framkvæmdinni.

Gert er ráð fyrir í frumvarpinu að áfram verði greitt skilagjald þegar drykkjarvöruumbúðum er skilað að lágmarki 15 kr. á hverja umbúðaeiningu. Skilakerfi getur haft þessa upphæð hærri ef það kýs svo eða þörf krefur. Mikilvægt er talið að halda í skilagjaldið þar sem það er hvatning til að skila notuðum drykkjarvöruumbúðum.

Þá er einnig með frumvarpinu eins og framan er rakið lagt til að úrvinnslugjald samkvæmt lögum um úrvinnslugjald verði lagt á raf- og rafeindatæki og eru því lagðar til breytingar á lögum um úrvinnslugjald.

Þá er að lokum í frumvarpinu lagt til að tekin verði upp framleiðendaábyrgð drykkjarvöruumbúða og lagt til að lög nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, falli úr gildi þar sem kveðið verður á um framleiðendaábyrgð drykkjarvöruumbúða í lögum um meðhöndlun úrgangs verði frumvarpið að lokum að lögum.

Virðulegur forseti. Ég hef rakið meginefni frumvarpsins. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar að lokinni 1. umr.