143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

kæruferli fyrndra kynferðisbrota.

[14:24]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að fara aðeins með umræðuna inn á aðrar brautir. Í gær heyrði ég í fréttum Bylgjunnar, og það má lesa það á Vísi, að gerðar hafi verið breytingar á verklagsreglum lögreglunnar þegar kynferðisbrot eru kærð sem eru fyrnd, þ.e. sannanlega fyrnd. Þegar þau kynferðisbrot eru kærð er það ekki verklag lögreglunnar vegna ábendinga eða tilmæla frá ríkissaksóknara að meintur gerandi sé tekinn til yfirheyrslu vegna málsins heldur er eingöngu sent bréf. Því hefur verið mótmælt og hafa margir stigið fram sem hafa orðið fyrir þeirri ömurlegu lífsreynslu sem kynferðisbrotin eru og telja þessa breytingu stórt, erfitt og þungt skref aftur á bak í málaflokknum. Það má að mörgu leyti taka undir vegna þess að það var mikið gæfuspor þegar Alþingi ákvað að samþykkja árið 2007 að nema fyrningu kynferðisbrota úr gildi þannig að öll mál eftir 2007 fyrnast ekki eða eru ófyrnanleg, en hins vegar var ekki hægt að gera þetta afturvirkt þannig að við erum með stóran stabba af málum sem koma upp sem eru enn þá á fyrningarreglu.

Mér finnst að í því máli séu menn í raun og veru að ganga í áttina frá vilja Alþingis, þ.e. að kynferðisbrot sem eru gömul eða fyrnd samkvæmt gömlu löggjöfinni — við séum að taka skref frá því með því að taka upp þetta nýja verklag. Mig langaði í fyrsta lagi að vekja athygli hæstv. ráðherra á þessu og í öðru lagi spyrja hana hvort ekki komi til greina að gera á þessu breytingar og hvort það geti komið inn á hennar borð.