143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

bætur vegna kynferðisbrota í Landakotsskóla.

[14:28]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Enginn vefengir mér vitanlega að í Landakotsskóla í Reykjavík, sem rekinn var undir handarjaðri kaþólsku kirkjunnar, voru framin mjög alvarleg kynferðisbrot á börnum. Kaþólska kirkjan var knúin til að horfast í augu við þennan veruleika og nú hefur komið á daginn að svo smá er hún í sér að hún rís engan veginn undir ábyrgð því að upphæðirnar sem fórnarlömbum ofbeldisins eru boðnar munu aldrei flokkast undir sanngirnisbætur.

Hvað sem fólki finnst um þá aðferð að greiða sanngirnisbætur fyrir brot sem framin eru á börnum þá er þetta regla sem tekin hefur verið upp í íslenska skóla- og stofnanakerfinu. Þar með hefur skapast ákveðið viðmið. Það er eðlilegt að öll börn sem sækja skóla eða eru vistuð á stofnunum í landinu eða voru það á sínum tíma njóti jafnréttis og jafnræðis í þessu efni.

Þess vegna beini ég því til hæstv. menntamálaráðherra hvort hann muni beita sér fyrir því að þetta mál verði sérstaklega tekið upp og skoðað hvað varðar börn sem urðu fyrir kynferðisbrotum í Landakotsskóla í Reykjavík.