143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

bætur vegna kynferðisbrota í Landakotsskóla.

[14:30]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að vekja máls á þessu alvarlega máli. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þingmanni að þær bætur sem kaþólska kirkjan samþykkti að greiða út til þeirra sem urðu fyrir þessu ofbeldi eru skammarlega lágar. Þær eru allt of lágar og mér finnst lítil sanngirni í þessum sanngirnisbótum satt best að segja. Það er einn þáttur málsins. Mér fyndist bragur á því ef kaþólska kirkjan endurskoðaði þetta mál af sinni hálfu og kæmi til móts við þessa einstaklinga af meiri sanngirni.

Ég held að það geti farið ágætlega á því að við veltum aðeins fyrir okkur hvernig við viljum takast á við þetta mál. Reyndar þarf að huga að því hvernig verði tekist á við svona mál sem síðar kunna að koma upp. Ég óttast að þetta verði ekki í síðasta sinn sem slíkt mál kemur upp. Þá er spurningin þessi: Þær sanngirnisbætur sem hafa verið greiddar út voru greiddar á grundvelli rannsóknarskýrslu eða vinnu sem rannsóknarnefnd vann um tilteknar stofnanir. Þær bætur náðu til þeirra sem höfðu verið á þeim stofnunum. Spurningin er hvort við útvíkkum með almennum hætti það regluverk sem þar hefur verið búið til eða hvort til dæmis menntamálaráðuneytið, af því að hér er um að ræða skólastofnun, láti vinna sambærilega skýrslu og var gerð á sínum tíma um þau meðferðarheimili og vistunarheimili sem sanngirnisbæturnar grundvölluðust á, hvort sambærileg vinna yrði sett í gang til að meta þessa stöðu upp á nýtt.