143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[14:43]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmönnum, nefndarmönnum í fjárlaganefnd sem kvarta utan verklagi ríkisstjórnarinnar. Gengið var frá breytingartillögum ríkisstjórnarinnar í ríkisstjórn á föstudag. Fundað var með fjárlaganefnd og tillögurnar kynntar og formaður fjárlaganefndar fór í umboði stöðu sinnar í útvarpið og rökræddi þær í mjög löngu og ítarlegu máli og færði fyrir þeim vondu tillögum eins gild rök og hægt var að flytja.

Það er með ólíkindum að sjá það síðan hér í óundirbúnum fyrirspurnatíma að forsætisráðherra landsins er kominn á harðahlaup undan sínum eigin tillögum og er algerlega ráðalaus, veit ekkert hvernig málið á að líta út endanlega en samt er boðað að hér fari fram 2. umr. fjárlaga á fimmtudag. (Gripið fram í: … umræða um málsmeðferð.) Þetta er algerlega ótrúlegt og ég verð að biðja um að forseti taki í taumana. Það er auðvitað ekki hægt að ganga þannig fram (Forseti hringir.) að menn boði 2. umr. fjárlaga þegar enginn veit enn þá hverjar breytingartillögurnar eru (Forseti hringir.) og hún á að fara fram innan tveggja daga.