143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[14:45]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég hef skilning á því að hæstv. forseti skuli sýna hv. þingmönnum skilning og leyfa þeim að lýsa áhyggjum sínum hér undir liðnum um fundarstjórn forseta, en ég vil þá nota tækifærið undir þeim lið til að láta virðulegan forseta vita af því að áhyggjur þingmanna eru algerlega ástæðulausar.

Það eina sem hefur gerst hér er að hv. þingmönnum hefur verið bent á að einhverjar getgátur þeirra hafi ekki reynst réttar. Auðvitað hafa menn velt ýmsu fyrir sér undanfarnar vikur og mánuði við fjárlagavinnuna en þegar hv. þingmenn ætla að fara að æsa sig yfir einhverju sem þeir eru að geta sér til um að verði niðurstaðan og þeim hefur verið bent á að sú sé ekki raunin þá eðlilega leiðréttum við það. Ég tala nú ekki um þegar hv. þingmenn fara að halda því fram að breytingar, t.d. breytingar á framlögum til þróunarmála sem núverandi ríkisstjórn mun líklega standa fyrir, þeir gefa sér það, sé eitthvað sem síðasti meiri hluti hafi aldrei gert þrátt fyrir að sá meiri hluti, síðasta ríkisstjórn, hafi gert einmitt það og meira til, skorið miklu meira niður til þróunarmála 2010, 2011 og 2012, þá er eðlilegt að benda mönnum á að þeir fara ekki með rétt mál.