143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[14:52]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hérna er ég að glugga í lítið skjal sem ekki allir þingmenn hafa og fæstir hafa líklega lesið, „Vinnureglur forseta Alþingis um stjórn þingfunda“. Þetta eru ekki þingsköpin og ekki „Háttvirtur þingmaður“. Það liggur nefnilega frammi fullt af svona skjölum um verklagsreglur á þinginu sem eru ekki gerð þingmönnum aðgengileg. Þetta erum við að ræða í þingskapanefnd.

Ég sný mér þá að síðu 9 þar sem er talað um fundarstjórn forseta. Þar segir að með fundarstjórn forseta sé átt við, með leyfi forseta, „að þingmenn fjalli undir þessum lið um framkvæmd þingskapa svo og dagskrá, fundartíma og önnur efnisatriði er lúta að störfum þingfundarins. Undir þennan lið falla ekki efnisumræður. Þingmál þetta er umræða um form.“

Þá er spurningin: Formið? Dagskráin er form. Þingforseti hefur vald yfir dagskránni. Þingmenn í fjárlaganefnd hafa greinilega ekki nægar upplýsingar til að geta farið í efnislega umræðu. (Forseti hringir.) Á þá þingforseti ekki að fresta þessu formi, fresta þessum dagskrárlið, (Forseti hringir.) jafnvel þó að það þýði að við þurfum að vinna lengur og nær aðfangadegi?