143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[14:56]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ekkert er eðlilegra en ræða undir fundarstjórn forseta að hætt var við fund fjárlaganefndar í morgun þegar á að fara að hefja 2. umr. og hina efnislegu umræðu um fjárlögin á fimmtudaginn kemur samkvæmt áætlunum. Eðlilegt er að spurt sé hvernig standi á því að meginmál haustþingsins sé í uppnámi.

Hinu ber auðvitað að fagna að stjórnarmeirihlutinn sé efnislega á undanhaldi með áform sín um að skerða barnabætur. Hæstv. fjármálaráðherra lýsti því yfir að þau áform væru uppi. Það er athyglisvert að hæstv. forsætisráðherra skuli kalla yfirlýsingar Bjarna Benediktssonar getgátur. Þegar hv. þm. Höskuldur Þór Þórhallsson kemur í ræðustólinn og segir að það sé gott þegar menn sjá að sér þá verður ekki betur séð en Framsóknarflokkurinn hafi gert Sjálfstæðisflokkinn afturreka (Gripið fram í.) með þessar ómögulegu niðurstöður. (Gripið fram í.)