143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[15:33]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að gera aðrar athugasemdir við svör hv. þingmanns en þær að IPA-styrkirnir eru ekki í fjárfestingaráætluninni (VigH: Þú sagðir ...) en hins vegar er gert ráð fyrir tekjulækkun vegna verkefna sem hætt er við í frumvarpinu sem hér er til umræðu. En fjarskiptasjóðurinn verður af 195 millj. kr. markaðra tekna samkvæmt tillögu meiri hluta fjárlaganefndar.

Sjóðnum er ætlað að stuðla að því að fjarskiptalegum skuggasvæðum landsins verði fækkað, meðal annars vegna neyðar- og öryggissjónarmiða, og einnig að stuðla að enn frekari ljósleiðaravæðingu á torveldum svæðum. Um þetta hafa hv. þingmenn Framsóknarflokksins tjáð sig og meðal annarra hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. sjávar- og landbúnaðarráðherra í grein sem þeir kalla „Ljós í fjós“. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það ljós sé nú ekki slokknað í fjósum landsins.