143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[15:36]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla rétt að vona að það verði rafmagn víða um land á næstunni og líka netsamband því að, eins og hv. þingmaður kom inn á áðan, við fengum marga í heimsókn til okkar frá sveitarfélögum landsins þar sem þessi mál eru víða afar bágborin vægast sagt. Það má heldur ekki gleyma þrátt fyrir Farice hvert lögbundið hlutverk fjarskiptasjóðs er. Ég bið hv. þingmann að hafa það í huga.

Mig langaði að velta einu aðeins upp í ljósi þeirra umræðna sem farið hafa fram í nefndinni. Af því að hv. þingmaður hefur í gegnum tíðina — það sem ég hef heyrt til hennar — talað mikið um gagnsæi stjórnmálanna og ýmislegt í þeim dúr þá vekur það auðvitað athygli og gerði við umfjöllun og tillögur við frumvarpið á milli 1. og 2. umr. að verið er að búa til nýjan 300 millj. kr. fjárlagalið hjá menntamálaráðuneytinu. Þegar starfsmaður fjármálaráðuneytisins kom og fór yfir þetta munnlega með nefndarmönnum á föstudaginn þá vildi hann eiginlega lítið tjá sig um þetta og benti okkur á að tala við menntamálaráðuneytið þar sem hann tæki undir það sjónarmið okkar að kannski væri ekki gott að gera þetta svona.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Finnst henni eðlilegt að taka af liðum undir ráðuneytinu sem einhverra hluta vegna hafa ekki klárast eða er ekki fyrir séð að muni klárast á árinu og flytja á milli óskyldra liða og búa til einhvern lið? Og ekki nóg með það heldur á hann að notast á næsta ári, hann á ekki einu sinni að notast í ár. Ég er hrædd um að það hefði heyrst hljóð úr horni ef þetta hefði komið svona frá fyrrverandi ríkisstjórn.