143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[15:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega ekki hægt að fara yfir málefni Farice í fyrirspurnum og andsvörum, en það skal upplýst að ég hef nú þegar farið fram á sérstaka umræðu um málefni strengsins við fjármálaráðherra þar sem við gætum farið dýpra í þau mál.

Eins og þingmaðurinn veit hefur fjárlaganefnd fengið fulltrúa frá fjármálaráðuneytinu og úr stjórn Farice til sín og farið yfir málin. Ég tel að fjárlaganefnd hafi ekkert verið afar ánægð með þá heimsókn þegar aðili í stjórn sjóðsins gat ekki einu sinni upplýst fyrir fjárlaganefnd hvað stjórnarlaunin væru há á ári. Það þarf greinilega að skoða þetta mál mun betur og mun ég beita mér fyrir því sem formaður fjárlaganefndar, þannig að það sé sagt.

Hér er spurt um stuðning, hvort ég komi til með að styðja tilfærsluna hjá menntamálaráðuneytinu sem lögð er til í fjáraukalögum, þá geri ég það því að fjárlaganefnd komst að því á tæpum tveggja klukkustunda (Forseti hringir.) fundi á laugardaginn að þetta væri skásta leiðin (Forseti hringir.) til að þessi upphæð mundi ekki falla niður á milli ára.