143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[15:43]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem ég verð að byrja á að nefna hér. Þrátt fyrir mikinn kosningasigur Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks þá er það nú þannig — og það kemur ítrekað fram í reikningum ríkisins og í kynningu á þeim — að tekjur innheimtast alltaf betur á seinni hluta árs. Það hefur verið þumalputtaregla hingað til þannig að það átti ekki að koma neinum á óvart.

Að auki verður líka að koma fram í þessari umræðu að framlag Náttúrufræðistofnunar á móti IPA-styrknum var eingöngu 20% þannig að ég bið nú um að menn fari rétt með hér þó að þeir séu andsnúnir málunum þannig að fólk sem á hlýðir geti betur glöggvað sig á því sem um er að ræða.

Virðulegi forseti. Í fjáraukalagafrumvarpinu er gert ráð fyrir því fyrir breytingar að hagvöxtur á þessu ári verði 1,7%. Er þar vísað í hagvaxtarspá Hagstofunnar frá því í júní sl. í stað þess að nota hagvaxtarspá Hagstofunnar frá því í nóvember þar sem gert var ráð fyrir 2% hagvexti á þessu ári. Síðan sjáum við í byrjun desember að fyrstu níu mánuði þessa árs er hagvöxtur 3,1%. Ég vil því spyrja hv. formann fjárlaganefndar að hve miklu leyti tekið sé tillit til þessarar breyttu spár á tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins. Það skiptir gríðarlega miklu máli að það komi skýrt fram og ég sé ekki í nefndarálitinu að það hafi sérstaklega verið gert — eingöngu þessarar aukningar á innkomu sem menn sjá en það getur líka verið þessi árstíðabundna sveifla sem menn hafa þekkt til í þó nokkurn tíma.

Mér þætti gott að fá svar við því hvort búið sé að uppfæra hagvaxtarspána sem liggur að baki í þessu tilviki.