143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[15:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir að koma hér í andsvör við mig. Bein spurning var sú hvort gert væri ráð fyrir nýrri hagvaxtarspá, sem birtist fyrir skömmu, upp á 3,1% fyrstu níu mánuði ársins. Því er til að svara að við höfum ekki gert það. Vinnan var komin það langt að ekki var verið að skapa enn frekari væntingar í fjáraukalögum. Svo er heldur ekki að sinni með fjárlögin fyrir 2014 þó að ekki sé búið að taka ákvörðun milli 2. og 3. umr. hvort það verði á einhvern hátt tekið inn þar. Þetta eru því rauntölur sem við fjöllum hér um sem byggja ekki á nokkurri spá. Raunverulega eru fjáraukalögin byggð á þeim hagvexti sem fjallað er um í frumvarpinu sjálfu.

Svo að ég fari úr fjáraukalögunum og yfir í fjárlögin þá er ljóst að fjárlögin eru byggð á hagvaxtarspánni 2,7%. Skömmu eftir að fjárlögin voru gefin út lækkaði hagvaxtarspáin niður í 2,5%. Nú hafa jákvæðari fréttir birst af því að efnahagslífið virðist vera að taka við sér og er það mjög gleðilegt. Því að um leið og hagvöxtur eykst, þó ekki sé nema nokkur brot úr prósenti, hefur það gríðarleg áhrif á ríkisreksturinn. Við fögnum þessu og teljum að á næsta ári komi hagkerfið til með að eiga þó nokkuð inni miðað við þær spár sem við lögðum upp með, bæði í fjáraukalagafrumvarpinu og fjárlögunum fyrir 2014.