143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[15:48]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrir liggur ný spá sem hefur meira gildi og vægi en spáin sem hæstv. þingmaður segir að fjáraukalagafrumvarpið byggi á. Það er spá Hagstofunnar um hagvöxt upp á 2% frá því 15. nóvember sl. Í staðinn er ákveðið að halda sig við spána frá því í júní og ég spyr hvers vegna menn byggi ekki á nýjustu og bestu upplýsingum sem völ er á.

Ég spurði líka að þessu í umræðum um frumvarpið sjálft. Þá var mér sagt að menn mundu væntanlega taka tillit til þessa í fjárlagavinnunni en mér heyrist á formanni fjárlaganefndar að það hafi ekki verið gert.

Eins og hæstv. þingmaður sagði sjálf skiptir hvert prósent gríðarlega miklu máli í hagvexti hvað varðar tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins. Við megum því vænta þess að niðurstaðan verði alls ekki 30 milljarða kr. svarthol sem fráfarandi ríkisstjórn (Forseti hringir.) á að hafa skilið eftir sig heldur eitthvað miklu nær því sem fjárlagafrumvarp ársins (Forseti hringir.) segir í raun og veru til um.