143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[16:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir framsöguna á þessu nefndaráliti. Þess ber að geta að hv. þingmaður er fyrrverandi formaður fjárlaganefndar og var fjármálaráðherra í síðustu ríkisstjórn.

Í nefndarálitinu kemur fram mikil gagnrýni á taprekstur heilbrigðisstofnana. Nefnt er hér til sögunnar að með Landspítalanum sé tapreksturinn rúmir 5 milljarðar. Hefur hv. þm. Oddný Harðardóttir ekki eitthvað við þetta að athuga? Nú er verið að loka síðasta rekstrarári fyrri ríkisstjórnar og því er lokað svona í þessu fjáraukalagafrumvarpi. Þarna verður því miður að færa til bókar hvernig vinstri flokkarnir holuðu raunverulega heilbrigðiskerfið að innan og það er viðurkennt í þessu nefndaráliti af fyrrverandi ráðherra ríkisstjórnarinnar að staðan sé svona.

Ný ríkisstjórn, ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, ætlar að hagræða til heilbrigðismála. Hér kemur fram að ekki veitir af að finna fjármagn í heilbrigðiskerfið þegar það er meira að segja upplýst hér í fjáraukalagaumræðunni að fráfarandi ríkisstjórn skilur við með þessum hætti.

Er þingmaðurinn ekki sammála því að það sé orðið tímabært að snúa af þeirri leið sem (Forseti hringir.) fyrrverandi ríkisstjórn keyrði hér í heilbrigðismálum og taka undir það með nýjum stjórnvöldum að við eigum að forgangsraða til heilbrigðismála?