143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[16:20]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. formanni fjárlaganefndar spurninguna. Ég er sammála henni í því að við eigum að huga að heilbrigðiskerfinu og að það þurfi að leggja í það aukið fé. En sá formáli sem hv. þingmaður hafði að spurningunni verður til þess að ég þarf því miður að fara aftur í tímann og minna á hvernig staðan var haustið 2008 þegar hér varð stórkostlegt efnahagshrun. Því miður var staðan í heilbrigðiskerfinu þá þannig að Landspítalinn átti varla fyrir lyfjum og launum starfsmanna. Heilbrigðiskerfið stóð ekki vel þegar efnahagshrunið skall á okkur. Engu að síður þurfti að hagræða og skera niður og það gerði síðasta ríkisstjórn.

Við höfðum þó áttað okkur á því að lengra yrði ekki haldið og vorum byrjuð að gefa til baka, bæði í rekstur og tækjakaup og eins til einstakra málaflokka eins og geðheilbrigðisþjónustu. Þrátt fyrir að ekki væri farið í niðurskurð á rekstri heilbrigðisstofnananna á árinu 2013 er þarna taprekstur og ljóst að um alvarlegan vanda er að ræða.

Núverandi ríkisstjórn hóf hins vegar niðurskurð að nýju í heilbrigðiskerfinu en það gleður mig að hún skuli ætla að snúa af þeim vegi og ég vona að við getum unnið saman að því, meiri hluti og minni hluti, að efla heilbrigðiskerfið og gera það þannig að það sé sómi að og að öryggis allra íbúanna sé þar gætt, hvort sem þeir (Forseti hringir.) eiga heima úti á landi eða á höfuðborgarsvæðinu.