143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[16:29]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Helstu ástæðurnar fyrir því að markmið fjárlaganna 2013 náðust ekki eru á tekjuhliðinni. Neysluskattar skila sér illa inn. Ég er ekki með frumvarpið fyrir framan mig en í því eru þetta um 8 milljarðar (Gripið fram í.) og af því er virðisaukaskatturinn eitthvað um 5. Þetta er samkvæmt minni þannig að tölurnar geta verið rangar. Neysluskattarnir skiluðu sér illa inn fyrri hluta ársins en skila sér hins vegar núna seinni hluta ársins. Það er líka skiljanlegt. Við þekkjum að fólk heldur að sér höndum þegar í vændum er mikil summa í heimilisreksturinn í gegnum skuldaniðurfellingar og kosningaloforð nýrra stjórnvalda.

Ég held því fram og margir sérfræðingar sem við hv. þingmaður höfum hlustað á útiloka ekki að það sé ein af skýringunum á því að neysluskatturinn skili sér seint á árinu. Varðandi veiðigjöldin, virðisaukaskattinn á ferðaþjónustunni og IPA-styrkina sem eru á fimmta milljarð — þetta eru upphæðir sem gert var ráð fyrir á tekjuhlið í fjárlögum 2013. Það væri því mjög skrýtið ef við ættum að sleppa því að nefna þá hluti í greiningu okkar á stöðu mála. Því miður, og ég er ákaflega óánægð og hrygg yfir því, náðum við ekki markmiðum okkar en þegar við greinum stöðuna getum við ekki sleppt svo stórum áhrifavaldi sem kosningaloforð nýrrar ríkisstjórnar er og aðgerðir þeirra á sumarþinginu og núna síðast í nóvember til að (Forseti hringir.) uppfylla þau.