143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[16:50]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil gleðja hv. þingmann með því að ég taldi enga ástæðu til að fara í andsvar við hv. formann fjárlaganefndar en ég taldi hins vegar ástæðu til að fara í ræðu og benda á þann misskilning sem virðist vera uppi varðandi þetta mál.

Úr því að hv. þingmaður spyr um samanburð þá segi ég: Já, þetta er nálægt því að vera sú tala sem kostar að reka umrædda ræðismannsskrifstofu okkar í Nuuk. Þetta eru umtalsverðir fjármunir, við gerum okkur grein fyrir því, en þetta eru fjármunir sem var stolið frá okkur árið 2009.

Það tekur tíma að fara í gegnum allt það ferli sem í framhaldinu fer sjálfkrafa af stað, og þegar ekki tekst að innheimta hjá viðkomandi aðila endar það að sjálfsögðu hér hjá okkur því að þetta eru jú ófyrirséðir atburðir sem þarna gerast. Enginn gat séð það fyrir að þessi fyrrverandi starfsmaður ákvæði að fara þá leið að draga sér fé, ekki frekar en við getum séð það fyrir að sjúkrahús fari svo og svo mikið fram úr fjárhagsáætlun kannski ár eftir ár — fái það síðan bætt, eða er það skorið niður? Ákveðna hluti getum við séð fyrir, aðra ekki. Þetta var klárlega ófyrirséð.