143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[16:51]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég endurtek að ég hef fulla samúð með utanríkisráðuneytinu út af þessu máli. Það er kannski enn þá ófyrirséðara að fólk gangi um og seilist í búðarkassann og taki þaðan peninga án leyfis. Ég held að það sé jafnvel ófyrirséðara en að stofnanir fari fram úr áætlun, þó að ég vilji á engan hátt segja að það eigi gerast, hitt er enn þá ófyrirséðara.

Mér finnst þetta líka bera nokkurn keim af því hvernig forustumenn fjárlaganefndar hafa talað um utanríkisþjónustuna, af mikilli vanvirðingu og þannig að allt sé óþarfi sem þar er gert og þetta fólk sé alltaf í einhverjum kokteilboðum og veseni. Ég veit að hæstv. ráðherra er algjörlega ósammála þessu viðhorfi vegna þess að hann hefur lýst því hér áður í ræðustól hversu góða vinnu hann telur utanríkisráðuneytið vinna.

Ég var að lesa bók eftir hv. þm. Steingrím J. Sigfússon í gær þar sem hann hrósaði utanríkisþjónustunni fyrir að hún hefði staðið sig vel á okkar verstu tímum. Samúð mín er því öll með utanríkisþjónustunni og ég vona að formaður fjárlaganefndar komi hingað bráðum þannig að hægt sé að kalla hana í ræðustól.