143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[17:20]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hv. þingmaður kom inn á því að á sama tíma eru áform um að skera töluvert niður á næsta ári hjá þeim stofnunum sem hér eru til umræðu. Það á m.a. að fella niður hluta hallans í lokafjárlögum. Það horfir auðvitað sérkennilega við. Það eina sem sett er til viðbótar rekstri Landspítalans er akkúrat til þess að mæta áætlaðri afkomu á þessu ári, sem þýðir að hann situr uppi með 1/3 af hallanum á næsta ári.

Varðandi 125 milljónirnar svaraði hv. formaður fjárlaganefndar, þegar við inntum hana eftir þessu, að okkur væri frjálst að leggja þetta til, sem við og gerðum. Ég vona auðvitað að ríkisstjórnin samþykki það. Það er mjög sérstakt, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, að stofnanir ríkisins á hverjum tíma þurfi að sætta sig við að ákvarðanir fráfarandi ríkisstjórnar séu teknar til baka sem veldur vissulega ófyrirséðum útgjöldum eins og í þessu tilfelli. Þetta er eitt af því sem á klárlega heima í fjáraukalögum sem ófyrirséð útgjöld. Þetta var mikið álag — ég man ekki hvort það var 20% meira, ég fer kannski ekki alveg rétt með, sem varðaði sýkingarnar og innlagnir og annað því um líkt. Ég verð bara leiðrétt ef það er ekki rétt. Það var alla vega mjög mikið miðað við meðalár. Auðvitað er ekki hægt að tala um annað en að þetta hafi verið ófyrirséð og það er eins og ég segi mjög sérstakt að þetta sé afgreitt með þessum hætti.

Ég tek undir með hv. þingmanni að við í minni hlutanum eigum auðvitað bara að kalla eftir svörum og fá nánar úr þessu skorið á milli umræðna.