143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[17:49]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég held að við hv. þingmaður séum sammála um að það ráðaleysi og stefnuleysi sem við sjáum hjá nýrri ríkisstjórn í ríkisfjármálum muni leiða til vandræða í ríkisfjármálum allt kjörtímabilið. Það er líka óþægilegt þegar jafn mikilvægur málaflokkur og ríkisfjármál er undir að maður greini það að ekki sé skýr stefna. Það virðist vera svolítið háð geðþótta og hagsmunum sterkra hópa hvar drepið er niður í fjárlögum íslenska ríkisins.

Varðandi umræðu velferðarnefndar um stöðu atvinnulausra og kjör þeirra er það hárrétt hjá þingmanninum að við ættum að taka þá umræðu. Þetta er auðvitað mjög bagalegt. Hér var seinkað setningu Alþingis til að hægt væri að leggja fram fjárlög. Ríkisstjórnin treysti sér ekki til þess að gera það á lögskipuðum tíma. Síðan hefur 2. umr. dregist þannig að sagt hefur verið: Það á að koma mynd á þetta fyrir 2. umr. fjárlaga. Nú heyrum við að barnabæturnar séu undir, þannig að það er mjög seint sem við fáum raunverulega mynd til að vinna með í nefndum þingsins. Mjög margt af því sem hér verður lagt til í 2. umr. erum við að fá að vita um aðallega með leka í fjölmiðlum. Þetta er afskaplega slæmt verklag og til þess fallið að draga úr möguleikum þingnefnda til að fjalla um málefni fjárlaga.