143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[17:58]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, hvort sem búinn er til pottur eða ekki er það að flytja á milli ára óeðlilegt. Það eru mjög skýrar reglur um það hvernig fjárheimildir eru fluttar á milli ára. Það er aðeins ákveðið hlutfall þeirra sem má flytja á milli. Ég ætla ekki að alhæfa um þetta þar sem ég hef ekki skoðað það vel en ef um trix er að ræða er það óheppilegt því að það er bara til þess að plata á pappírunum en ekki í raun.

Varðandi það að flytja á milli liða er það náttúrlega ekki hægt. Fjárlögin gilda. Þar hafa verið veittar fjárheimildir á ákveðna liði og þá þarf að breyta lögum til að slík millifærsla sé möguleg.

Ég held að þessar æfingar stafi kannski að hluta af því að markmiðið um hallalaus fjárlög er orðið æðra öllu öðru. Ég ítreka hér, ég hef þegar sagt það nokkrum sinnum, að ég er svo sammála því að hallalaus fjárlög skipti miklu máli en þau mega hins vegar ekki kosta hvað sem er. Það er ekki öllu til fórnandi. Til að ná hallalausum fjárlögum er kapp best með forsjá. Allir þurfa að taka þátt í því. Ákveðnir aðilar mega ekki fá ívilnanir meðan ný niðurskurðartilfelli eru fundin meðal atvinnuleitenda og barnafjölskyldna.