143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[18:19]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi liður sem ég nefni hér er ekki Nám er vinnandi vegur heldur samtíningur af ýmsum vannýttum liðum. Það eru fjórir liðir sem um ræðir og rekur sig í 242 milljónir undir liðnum Framhaldsskólar almennt, og 57,8 sem voru á liðnum fyrir og vannýtt líka. Þarna gerir ráðherrann ráð fyrir nýjum 300 millj. kr. potti, ekki á yfirstandandi ári heldur á næsta ári. Það er ólíkt því sem var með Nám er vinnandi vegur þar sem gert er ráð fyrir verkefnum sem falla innan fjárlagaársins. Að því leytinu til er þetta ólíkt, þ.e. við erum að tala um vannýttar heimildir á þessu ári sem nýtast inn á næsta ár.

Maður veltir fyrir sér, bara svona út frá góðum starfsháttum og gagnsæi, að þá fari betur á því, eins og hv. þingmaður nefnir, að fella heimildina niður á yfirstandandi ári og fara síðan með nýja beiðni inn í fjárlög. Þarna erum við í raun og veru að bjóða hættunni heim með það að hver ráðherra fyrir sig fari yfir sinn málaflokk í desember, sópi þar saman einhverju sem er vannýtt og búi til (Forseti hringir.) nýjan lið og þurfi ekki að fara í gegnum fjárlagabeiðnina með það heldur geti í raun dulbúið, eins og ég segi, fjárlagabeiðni (Forseti hringir.) sem fjáraukalagafrumvarp.