143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[18:25]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Mig langar að spyrja hana út í það hvað hún telji vera heimatilbúinn vanda í þessu frumvarpi til fjáraukalaga. Þá á ég við það hvernig ríkisstjórnin hefur með gjörðum sínum á þessu ári haft áhrif á það að þetta fjárlagagat er eins stórt og það er. Nú vitum við hvernig það er á kosningaári og tvær ríkisstjórnir eiga í hlut og ólíkar stefnur mætast eins og hefur komið skýrt fram, hægri og vinstri stefna, en mig langar að spyrja hvað hv. þingmaður áætli að sé heimatilbúinn vandi varðandi það hvað fjárlagagatið stefnir í að verða og hvað það hefði getað orðið hefðu menn haldið sig við fyrri áætlanir eins og fjárfestingaráætlun og áætlanir fyrri ríkisstjórnar sem hélt uppi stífum aga í fjármálum ríkisins.