143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[18:33]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er svo sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal að það næstum því hræðir mig. [Hlátur í þingsal.] Ég er algerlega sammála. Þegar maður fer að hugsa um lífeyrissjóðina og þær skuldbindingar sem við höfum hugsa ég stundum: Icesave hvað? Það er rétt hvernig lífeyrisskuldirnar eru gerðar upp, þær gefa ekki rétta mynd af stöðu mála. Mér finnst það vera eitt af þeim málum sem við ýtum inn í framtíðina, það er óþægilegt. Þetta er eins og Íbúðalánasjóður, við verðum hreinlega að horfast í augu við vandamálið og taka á því. Ég er innilega sammála því. Ég sé alveg fyrir mér að við hv. þingmaður getum flutt frumvarp um mörg fjáraukalög. Ég er tilbúin í þá vinnu.