143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[18:34]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Hér voru áhugaverð skoðanaskipti um fjáraukalög og gildi þeirra. Ég verð nú að leyfa mér að segja sem gamall fjármálaráðherra að það er ekki beinlínis staða sem fjármálaráðherrar almennt mundu óska sér að hér væru opin fjáraukalög í hverjum mánuði frá því í febrúar, mars og út árið. Það vill ýmislegt vakna til lífsins ef þau eru opnuð á annað borð.

Mér fannst vanta inn í umræðuna sem hér fór fram áðan þá ráðstöfun sem tekin var upp snemma á síðasta kjörtímabili að taka inn í fjárlög stóran óskiptan varasjóð sem á að mæta tilfallandi áföllum og er beinlínis ætlaður til þess eins og þegar náttúruhamfarir eða annað setur stórt strik í reikninginn. Það gerðist heldur betur. Bæði árin 2010 og 2011 glímdum við við umtalsverðar náttúruhamfarir sem kostuðu hið opinbera mikla fjármuni og þeir voru teknir af varasjóði fjárlaganna sem er upp á 5 milljarða kr. sem er sem betur fer viðhaldið enn sem fyrr og hugsaður í svona tilvikum.

Varðandi lífeyrisskuldbindingar sem hér voru líka nefndar, svo maður fari nú að svara meira og minna því sem var til umræðu í andsvörum, þá bið ég menn að gleyma því ekki að gerð er grein fyrir þeim reglubundið. Þær eru tíundaðar og uppfærðar reglubundið í bókhaldi ríkisins þó að ekki sé búið að takast á við þá framtíðarskuldbindingu nema í mjög takmörkuðum mæli í þeim skilningi að leggja inn fyrir henni. Það verður bara að horfast í augu við að þannig er það og frá og með 2022–2024 verður ríkið að hefja umtalsverðar greiðslur inn í kerfið ef ekki verður fyrir þann tíma búið að taka upp á nýjan leik inngreiðslur í það, eins og því miður var ekki gert í þeim mæli sem hefði auðvitað átt að gera meðan bullandi afgangur var hjá ríkinu í þenslunni. Þá gerðist það undarlega að inngreiðslurnar voru lækkaðar ár frá ári í staðinn fyrir að hækka þær. Verða þeir nú að horfast í augu við það sem þá fóru með völdin.

Frú forseti. Það hefði auðvitað verið gaman að hafa hæstv. forsætisráðherra, hv. formann fjárlaganefndar og hv. varaformann fjárlaganefndar í salnum þó að þetta ágæta fólk hefði ekki nema litið hér við af og til. Það hefði verið skemmtilegra í þessari umræðu svo ég segi nú mitt. Einhvern tíma hefði það gerst hér á Alþingi að stjórnarandstæðingar hefðu kvartað undan því að ræða nánast daginn langan um stórmál af þessu tagi án þess að helstu aðstandendur málsins létu sjá sig. Auðvitað hefði ekki spillt fyrir ef hæstv. forsætisráðherra hefði komið hingað í smástund en hann er kannski upptekinn við að kynna einhverjar nýjar hugmyndir.

Það sem ég vil gera aðallega að umtalsefni eru stóru drættirnir í þessu máli. Nú kemur það fram í nefndaráliti meiri hlutans, sem er ánægjulegt, að tekjuáætlun fjárlaga á yfirstandandi ári er uppfærð umtalsvert og áætlaður halli eða neikvæður heildarjöfnuður er þar af leiðandi kominn niður fyrir 20 milljarða samkvæmt því bókhaldi sem gefur að líta á fyrstu blaðsíðu nefndarálits meiri hluta fjárlaganefndar. Þetta stafar aðallega af því að tekjuáætlunin hefur aftur verið endurmetin og nú til hækkunar. Það er ánægjulegt.

Sömuleiðis er ég með í höndunum glænýtt gagn sem er Greiðsluafkoma ríkissjóðs janúar–október 2013 og kom á vef fjármálaráðuneytisins í dag. Þar gefur að líta greiðsluuppgjör ríkissjóðs fyrir fyrstu tíu mánuði ársins 2013.

„Staða handbærs fjár frá rekstri batnaði miðað við sama tímabil 2012 og var neikvæð um 12,3 milljarða kr. en var neikvæð um 37 milljarða kr. 2012.“

Hvað er þetta? Þetta er tæplega 25 milljarða bati sem handbært fé frá rekstri er minna neikvætt en í fyrra. Er það ekki umtalsverður árangur? Sýnir það ekki að áformin um að ná að mestu leyti að vinna á halla ríkissjóðs á þessu ári eru ekki langt undan? Það er einfaldlega þannig að innheimtar tekjur ríkissjóðs fyrstu tíu mánuði ársins eru 8,7% hærri en á sama tíma í fyrra. Það er ekki verra en það og er þó búið að endurgreiða ofgreidda álagningu á lögaðila að mestu leyti því að það var gert í október á þessu ári en hefur sum árin ekki verið gert fyrr en í nóvember. Ef eitthvað er má gera sér vissar vonir um að þetta líti jafnvel betur út síðustu tvo mánuði ársins.

Segjum að við tökum útgangspunkt í tæplega 20 milljarða halla sem í stefnir á ríkissjóði núna. Það liggur fyrir að af þessum halla á núverandi ríkisstjórn með ákvörðunum sínum um 4,5 milljarða. Við eigum ekki að þurfa að deila um það. Þá erum við komin í 15 milljarða. Jú, það er umtalsvert meira en menn vonuðust eftir í fjárlögunum, 3,7, en það er samt komið vel niður fyrir 1% af vergri landsframleiðslu. Er það ekki eitthvað sem við svona í ljósi fortíðarinnar getum verið sæmilega sátt við? Eigum við að rifja upp tölurnar hvernig þetta var? 14,6% 2008, 9,4%, held ég, 2009, líklega milli 7 og 8% 2010, rúm 5% 2011, rúm 3% 2012 og fer kannski niður fyrir 1% 2013. Ég held að hver sem er sem telst bera einhverja pólitíska ábyrgð á svona tölum geti bara farið alveg þokkalega ánægður með það út úr pólitík og í gröfina þess vegna.

Bendið mér á önnur dæmi einhvers staðar í nágrenni við okkur þar sem hefur tekist jafn hratt og markvisst að vinna niður alveg geigvænlegan halla ríkissjóðs. Jafnvel þótt það verði vonbrigði að þetta lendi upp undir 1% af vergri landsframleiðslu á þessu ári þá er himinn og haf á milli þess að reka ríkið með 15–18 milljarða halla, sem er innan við 1% af vergri landsframleiðslu, og þeim ósköpum sem við stóðum frammi fyrir á umliðnum árum. Það hljóta allir sanngjarnir menn að viðurkenna það.

Ég er bara ánægður með þetta þótt ég horfist vissulega í augu við að hverfandi líkur eru á því að við náum markmiðum fjárlaganna og auðvitað er alls konar óvissa í þessu. Auðvitað er alveg ljóst að þarna koma til lækkandi tekjur vegna heldur minni umsvifa. Á móti leggst okkur það að vaxtakostnaður verður umtalsvert minni. Þannig er þetta. Enn er umtalsverð óvissa í slíkum þáttum hjá okkur þótt ástandið hafi samt jafnt og þétt verið að gerast stöðugra. Það er að verða viðráðanlegra að áætla frávik og spá til framtíðar en var meðan íslensk efnahagsmál voru nánast eitt svarthol og ríkisfjármálin þar með, á árunum 2009, 2010 og langt fram á síðasta kjörtímabil. Þetta er heldur hughreystandi.

Ég tel ástæðu til að menn gleðjist frekar yfir stöðunni í staðinn fyrir að jagast út í hvort þetta eða hitt sé hinum eða þessum að kenna. Það er reyndar þannig að ákvarðanir ríkisstjórnarinnar í vor um að auka greiðslur í almannatryggingakerfinu eru hluti af þessu líka, upp á 2,5 milljarða ef ég man rétt. Ég ætla ekki að telja það með vegna þess að ég er mjög ánægður með að menn ákváðu að setja meiri fjármuni í almannatryggingakerfið eins og til stóð og fyrir lá í frumvarpi að nýjum almannatryggingalögum þótt deila megi um útfærsluna. Hún er ekki sú sem ég hefði viljað sjá, að menn hefðu hækkað fyrst og fremst kjörin hjá þeim lakast settu en ekki hinum sem hafa umtalsverðar aðrar tekjur en bótagreiðslur og fá núna minni skerðingu vegna þeirra, en þá er ég kominn út í umræður um pólitíska forgangsröðun og áherslur.

Ég vil gera að umtalsefni nokkra liði í breytingartillögum meiri hlutans, frú forseti. Þar vil ég nefna Háskóla Íslands og byggingu Stofnunar Árna Magnússonar. Óskaplega fannst mér dapurlegt að sjá á sjálfu almanaksárinu þegar menn rembdust við að halda upp á afmæli Árna með hátíðahöldum í Þjóðleikhúsinu. Ég hafði ekki geð í mér til að mæta, frú forseti. (Gripið fram í.) — Nei, ég hafði það ekki vegna þess að það var búið að ákveða að slá af bygginguna. Þannig var það. Ég fann mig ekki í því að halda sérstaklega hátíð í nafni Árna Magnússonar við þær aðstæður. Hvað er vestur á Melum? Hola. Hver á að bera ábyrgð á holunni? Háskóli Íslands. Ríkið ætlar að draga sig algerlega út úr verkefninu, taka út þær 150 milljónir sem áttu þó að koma á móti háskólanum fyrir upphafsáfanga verkefnisins. Mér finnst ekki hátt risið á þessu, satt best að segja. Og ég velti fyrir mér hvernig Háskóli Íslands á eftir að líta á samskipti við ríkisvaldið um frekari framkvæmdir ef hann má vænta svona „trakteringa“, að hann eigi að sitja einn uppi með verkefni sem ríkið ákveður að stoppa en háskólinn hafði lofast til að taka af sínu fé framhlaðið til að koma málinu af stað á erfiðum tímum í ríkisbúskapnum. Ég mundi skilja þá í háskólanum ef þeir hefðu fyrirvara á því að eiga slík samskipti við núverandi ríkisstjórn.

Ég fagna því að Rannsóknasjóður er settur inn aftur og hætt er við skerðinguna á honum og Tækniþróunarsjóði. Ég gerði þetta að umtalsefni við 1. umr. þessa máls. Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra: Er þetta hægt? Er ekki meira og minna búið að binda og ráðstafa þessum fjármunum? Hér er sagt að að betur athuguðu máli sé talið að vinna að umsóknum um styrki, við mat og yfirferð þeirra til væntanlegrar úthlutunar sé það langt komin að ekki væri heppilegt að lækka framlagið á þessu stigi. Gott. Menn hafa þá séð að sér í þeim efnum.

Ég spurði líka um markáætlun vegna þess að það kom mér mjög á óvart að hægt væri að kippa út úr henni 200 milljónum þegar eftir lifðu sex vikur ársins en hún fær ekki tillögu um hækkun og ég vonast til að farið verði yfir það með sama hugarfari milli 2. og 3. umr. Er ekki nákvæmlega sama staða uppi þar? Er ekki jafn glórulaust að fara svona seint á árinu inn í þær fjárveitingar sem menn höfðu gengið út frá í meira en tíu mánuði að þeir hefðu til ráðstöfunar þar?

Það eru því í þessu plúsar og mínusar. Ég fagna því að menn hafa séð að sér með rannsóknarsjóðina, Tækniþróunarsjóð og Rannsóknasjóð, og betur að menn gerðu það á fleiri sviðum. Ég er hins vegar áfram mjög ósáttur við skerðinguna á Framkvæmdasjóði ferðamannastaða sem vissulega er í frumvarpinu og engar breytingartillögur eru gerðar um að draga til baka. Það lítur sakleysislega út á pappírunum að lækka Framkvæmdasjóð ferðamannastaða um 88,6 milljónir en í reynd er verið að skerða hann um 127 vegna þess að það er ekki örlæti af hálfu stjórnvalda eða meiri hlutans að hann fái að halda tekjum sínum af gistináttagjaldi sem reynast meiri en menn höfðu gert ráð fyrir í fjárlögum. Þökk sé væntanlega stórauknum umsvifum í ferðaþjónustu.

Ég spyr: Er það virkilega ætlunin að skilja svona við þennan málaflokk að reyta af Framkvæmdasjóði ferðamannastaða strax á þessu ári 127 milljónir og skilja hann eftir bjargarlausan á næsta ári með nánast ekkert nema gistináttagjaldið? Það eru allt saman fuglar í skógi sem menn hafa talað hátíðlega um, eins og ferðamannapassa og eitthvað slíkt, og liggur nú fyrir að gefa engar tekjur á næsta ári. Hver er staðan? Það eru allir sammála um gríðarlega þörf fyrir fjárfestingu í þessum innviðum, það eru það allir. Þetta er sú grein sem er að vaxa mest og færa okkur mestan viðbótarvirðisauka inn í hagkerfið. Það liggur fyrir að ferðaþjónustan og þjónusta tengd ferðaþjónustu og þannig flokkuð verður gjaldeyrisöflunargrein Íslands númer eitt þegar á þessu ári. Hún er komin fram úr sjávarútveginum og langt fram úr stóriðjunni. Þá er kominn tími til að við förum að tala um hana sem slíka, sem mikilvægustu uppsprettu gjaldeyrisöflunar fyrir þjóðarbúið því að það er hún orðin.

Í lok nóvember höfðu tæplega 740 þúsund erlendir ferðamenn yfirgefið Ísland. Þeir verða 780–790 þúsund á þessu ári ef svo heldur sem horfir, gríðarleg aukning, og vetrarmánuðirnir eru núna að sprengja allt af sér. Við vitum öll að þetta kallar á það að landið sé undirbúið undir að taka við álaginu sem þessu fylgir og það er vá fyrir dyrum á mörgum stöðum. Það er alveg glórulaust að mínu mati að draga úr fjárfestingu í innviðum og uppbyggingu á þessu sviði. Það er bersýnilega mjög ósanngjarnt. Það sem á auðvitað að gera er að láta þessa grein í samræmi við velgengni sína leggja meira af mörkum í almennum skatttekjum og í staðinn á hún auðvitað að fá tryggingu fyrir því að ráðist verði í þær fjárfestingar sem þarf til að þetta fari ekki úr böndunum.

Við höfum enga tryggingu fyrir því að á komandi árum verði umræðan jafn jákvæð um vöxt þessarar greinar ef ekki verður farið að taka til hendinni. Það er þegar farið að bera á miklum efasemdum um að þessi mikli vöxtur sé viðráðanlegur og að hann sé jafnvel ekki æskilegur fyrr en menn séu búnir að taka sér tak og gera það sem til þarf, sem er fjárfesting í innviðum, úrbætur á fjölsóttum stöðum og uppbygging nýrra til að dreifa ferðamennskunni betur um landið og áherslur í þeim dúr.

Að sjálfsögðu er áherslan á að markaðssetja Ísland yfir veturinn hárrétt og hefur skilað miklu og vegna þess að blessuð ríkisstjórnin og aðstandendur hennar eru nú að mínu mati á miklum villigötum þegar þeir draga úr þeim áherslum sem lagðar voru með fjárfestingaráætluninni að leggja áherslu á uppbyggingu í svona greinum, skapandi greinum, nýjum greinum í nýsköpun, í rannsóknum og þróun og í innviðum eins og uppbyggingu ferðaþjónustunnar, eigum við þá ekki að rifja upp að velgengni okkar á þessu sviði er a.m.k. að einhverju leyti til komin vegna þess að menn þorðu á botni kreppunnar að veðja á atvinnugreinina? Stjórnvöld og greinin fóru saman í mikið markaðsátak sem heppnaðist mjög vel og allir eru samdóma um að hafi skilað ótrúlegum árangri fyrir ekkert óhemju mikla peninga enda verðlaunað út og suður. Því var svo breytt yfir í að markaðssetja Ísland sérstaklega á veturna og væntanlega er hægt að reikna með því að að minnsta kosti einhver hluti velgengninnar sé þessu að þakka. Það var ekki eins og 300 millj. kr. lægju á lausu 2009 eða 2010 þegar við ákváðu engu að síður að setja þær í markaðsátak með ferðaþjónustunni vegna þess að þar var grein sem gat vaxið hratt og skilað okkur gjaldeyri og störfum. Og hún hefur gert það.

Það sama má segja um skapandi greinar, tækni- og þekkingargreinar, útflutning og þjónustu almennt. Þjónustuútflutningur á Íslandi hefur aukist gríðarlega og ef þjónustujöfnuðurinn er skoðaður þá hefur útflutningur í formi annarra þjónustutekna sem koma til landsins ekki síður vaxið en ferðaþjónustan sjálf. Það er útseld vinna verkfræðistofa, arkitekta, hönnuða og margra slíkra sem hafa verið duglegir að skapa sér verkefni á erlendri grund. Þar er vaxandi geiri sem við eigum að hlúa að.

Frú forseti. Ég hefði gjarnan viljað að meiri hluti nefndarinnar eða nefndin öll, enn betra, hefði lagfært vissa hluti í þessu frumvarpi sem mér finnst enn vanta stórlega upp á að hafi fengið fullnægjandi úrlausn. Ég tek undir það sem menn hafa sagt um fjarskiptasjóð. Nú er skaði að hafa ekki hetjurnar hérna, byggðavinina miklu úr Framsóknarflokknum í þingsalnum þegar við ræðum þetta mál. Eitthvað hefðu þeir sagt á síðasta kjörtímabili, kempurnar miklu, landsbyggðarvinir Íslands, ef þeir hefðu til dæmis séð hvernig á að fara með fjarskiptasjóð. Það á að reyta af honum tekjurnar sem voru gagngert settar inn í hann til að halda honum á lífi, til að hann fengi að njóta tekna af útboði rása og gæti notað þær í áframhaldandi stuðning við að bæta fjarskiptasamböndin á þeim svæðum landsins þar sem markaðurinn leysir það verkefni ekki sómasamlega af hólmi. Nei, nú á að fara í æfingar með það og taka þessa peninga frá honum. Hvað á þetta að þýða? Hvað segja landsbyggðarvinirnir miklu um þetta?

Ég hélt satt best að segja líka að ríkisstjórnin og meiri hluti hennar mundi, mér liggur við að segja nota tækifærið og laga sér í hag — annað eins hefur nú verið gert — og taka á vissum undirliggjandi og sumpart uppsöfnuðum vandamálum, já, frá fyrri tíð í þessu fjáraukalagafrumvarpi og skrifa það á reikning fyrri ríkisstjórnar að þeir hefðu orðið að taka til í þessu og hinu. En það er ekki gert. Maður horfir t.d. hér á gögn sem minni hlutinn birtir í nefndaráliti sínu um stöðuna á heilbrigðisstofnunum þar sem uppsafnaður halli á sjötta milljarð kr. hvílir á þeim. Einhvern tíma og einhvern veginn verður að takast á við þetta. Kannski ætla menn að fella eitthvað af þessu niður í lokafjárlögum og vissulega væri það verðskuldað, t.d. í tilviki Landspítalans sem hefur af miklum dugnaði tekist á við erfitt rekstrarumhverfi í mörg ár og gert það þannig að hann hefur alveg uppfyllt samkomulag við fjármálaráðuneytið um að nái hann að halda rekstri sínum innan fjárheimilda verði hann aðstoðaður með að skuldahalinn hverfi og sama mætti segja um margar aðrar stofnanir sem af miklum myndarskap hafa á undanförnum árum unnið upp og jafnvel borgað upp hallarekstur fyrri ára, eins og Háskólinn á Akureyri, en fá væntanlega enga umbun — eða hvað? — sem er auðvitað ekki sanngjarnt. Það þarf að vera þannig fyrirkomulag í þessum efnum að þegar menn ná tökum á sínum málum og ná árangri þá sé það metið að verðleikum og líka ef stofnanir borga beinlínis sjálfar upp þann hallarekstur sem þær höfðu uppsafnaðan frá fyrri árum þá þurfa þær í einhverjum skilningi að njóta góðs af því. En það er ekki valin sú leið í þessum fjáraukalögum að lagfæra hluti sem maður hefði frekar átt von á heldur eiginlega þvert á móti, einstaka smyglgósstillögur læðast þarna með sem ég sé litlar ástæður og lítil rök fyrir eins og dekur við forsetaembættið og forsætisráðuneytið sem ég hef satt best að segja engin almennileg rök heyrt fyrir. Ég man ekki betur en hér hafi verið hækkaðar fjárveitingar til (Forseti hringir.) forsetaskrifstofunnar um 36 millj. kr. í fjárlögum yfirstandandi árs (Forseti hringir.) — þarf virkilega 14 milljónir í viðbót, frú Vigdís Hauksdóttir?