143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[19:03]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla ræðu þar sem hann rakti mjög vel þær breytingar sem hafa orðið á til þess að gera skömmum tíma hvað varðar hallarekstur á ríkissjóði, frá því að vera 14% af vergri landsframleiðslu og verandi kominn niður fyrir 1%, jafnvel þó að þetta frumvarp fari í gegn eins og það er nú.

Það er tvennt sem mig langar að spyrja um í fyrstu lotu. Í fyrsta lagi er í tillögum frá meiri hluta fjárlaganefndar verið að ráðstafa peningum, sjóðnum fyrir átakið Nám er vinnandi vegur, það er ágætt ef hv. þingmaður rifjar það upp með mér hvort það hafi verið fjármagnað af Atvinnuleysistryggingasjóði í gegnum tryggingagjaldið, sem var sameiginlegt verkefni sem fólst í því að hjálpa ungu fólki að fara í skóla í staðinn fyrir að vera atvinnulaust. Nú er búið að taka þá upphæð og færa í sjóð sem á að nota á næsta ári. Ég man ekki eftir að menn hafi áður búið til sjóð þannig. Það sem meira er er að það á að gera ýmislegt sem er ekki sinu sinni búið að taka ákvarðanir um eins og stytta framhaldsskólanám og annað. Mig langar að heyra skoðun hv. þingmanns á þessu.

Hins vegar eru framkvæmdir sem hv. þingmaður kom ágætlega inn á og nefndi Háskóla Íslands og niðurskurðinn þar. Við erum líka með heilbrigðisstofnunina í Stykkishólmi sem var áætlað að færi í átak sem mundi spara bæði sveitarfélaginu og ríkinu verulegan pening í samrekstri á hjúkrunarheimilinu. Á Selfossi átti að byggja við heilbrigðisstofnunina og framhaldsskólann líka. Mér finnst þetta stangast ótrúlega mikið á við hugmyndir um að fjárfestingar hafi skort sem við vorum gagnrýnd harkalega fyrir. Þarna kippir ríkið út eiginlega einu fjárfestingunum sem voru á þessum tveimur sviðum, annars vegar (Forseti hringir.) í heilbrigðismálum og hins vegar í menntamálum.