143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið.

[20:33]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Nú er klukkan að nálgast níu á þessum drottins degi. Þetta hefur ekki verið tíðindalaus dagur svo að ekki sé fastar að orði kveðið því að breytingartillögur stjórnarmeirihlutans við fjárlagafrumvarpið hafa litið dagsins ljós og horfið úr því sama dagsljósi svona sitt á hvað.

Tillögurnar voru kynntar fyrir fjárlaganefnd á föstudaginn var, afgreiddar út úr ríkisstjórn, en svo gerist það að fjármálaráðherra greinir frá tilteknum tillögum á sunnudaginn í sjónvarpsþætti og hv. formaður fjárlaganefndar í útvarpsþætti í gær. Í dag hefur lækkun á barnabótum verið dregin til baka að hluta. Nýjustu fréttir eru að einhver hluti af lækkun til þróunaraðstoðar hafi verið dreginn til baka.

Ég spyr, virðulegi forseti: Hvað er að frétta af stöðu fjárlagagerðar á Alþingi Íslendinga á þessum drottins degi og hvers má hv. fjárlaganefnd vænta að því er varðar (Forseti hringir.) fundahöld um þessar tillögur?