143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[20:55]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að taka fyrir eitt efni sérstaklega sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson gat aðeins um í sinni ræðu. Reyndar var hann þá að fagna breytingartillögu meiri hlutans við fjáraukalögin sem varðar framlög til rannsóknarsjóðanna, Tækniþróunarsjóðs og markáætlunina sem hann nefndi sérstaklega.

Það segir í skýringum meiri hlutans við þá ákvörðun að setja aftur inn 221 millj. kr. í Rannsóknasjóð og sennilega um 150 millj. kr. í Tækniþróunarsjóð að að betur athuguðu máli sé talið að vinna að umsóknum um styrki, mat og yfirferð þeirra vegna væntanlegrar úthlutunar sé það langt komin að ekki sé heppilegt að lækka framlag á þessu stigi þrátt fyrir áform um tekjuöflun til að standa undir því gangi ekki eftir. Ég hafði miklar áhyggjur af því þegar þessar tillögur birtust í fjáraukalagafrumvarpinu að þarna væri um að ræða verulega skerðingu á sprotastarfsemi, ef svo má segja, rannsóknarstarfsemi, vísindastarfseminni í landinu sem allir eru held ég sammála um að sé mikilvægt að styðja við, sérstaklega þegar harðnar á dalnum eins og hefur gerst hjá okkur undanfarin ár eftir hrun.

Ég vil inna hv. þingmann aðeins eftir því hvernig hann lítur á þá liði sem er verið að bæta inn aftur, Rannsóknasjóði og Tækniþróunarsjóði sérstaklega með tilliti til þess hvert framhaldið verður síðan á næsta ári og sömuleiðis og kannski sérstaklega markáætlun á sviði vísinda og tækni þar sem verið er að draga um 200 millj. kr. Ég vil inna hann eftir því hvernig þetta kemur við þá starfsemi sem er háð styrkjum úr þessum sjóðum og hvort það eigi ekki alveg eins við með markáætlunina að menn séu komnir býsna langt með undirbúning (Forseti hringir.) og í raun og veru ráðstöfun og skuldbindingu þessara fjármuna á yfirstandandi ári.