143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[20:58]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það mætti nú kannski hæla ríkisstjórninni fyrir það ef hún tæki mark á stjórnarandstöðunni og breytti öllu jafnóðum og við gerðum athugasemdir við það. Hv. þingmaður nefnir þarna tvo liði, Rannsóknasjóð og Tækniþróunarsjóð, sem menn vöktu einmitt athygli á og sögðu: Er ekki búið að semja um útgjöld hvað þetta varðar? Það kom í ljós að ekki var hægt að breyta þessu, það var ekki hægt að skera niður nema þá að fara að kalla aftur úthlutanir og auglýsingar eftir úthlutunum o.s.frv.

Varðandi markáætlunina kann hið sama að eiga við. Ég hef ekki fengið neina staðfestingu á því að það sé ekki nákvæmlega það sama og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spurði einmitt ítarlega um fyrr í umræðunni. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við fáum svar við þessu og hv. fjárlaganefnd fái upplýsingar um það hvort ástandið er svipað varðandi markáætlun. En það er auðvitað uggvænlegt, hafandi setið í Vísinda- og tækniráði og fylgst með því hvaða hugmyndir eru uppi um breytingar á þessu umhverfi og mikilvægi allrar rannsóknarvinnu og stuðnings við nýsköpun og tækniþróun, að þetta skuli eiga að leggjast af um áramót. Það kemur sem sagt ekki til neinnar aukningar akkúrat núna þegar við þurfum mest á því að halda að horfa til nýrra greina í atvinnulífinu.

Nú veit ég ekki, kannski koma menn líka með viðbót við þetta í breytingunum sem eru að eiga sér stað þegar menn eru á hlaupum hér um gangana og úti um bæ til að reyna að bjarga því sem bjargað verður, nema þeir hverfi frá því sem þeir voru búnir að ákveða. Við skulum vona að það verði breyting á einhverjum af þessum atriðum. En það sem hefur einkennt umræðuna er skilningsleysi á nýsköpun og á skapandi greinum og mikilvægi þess að við séum með öflugt rannsóknarstarf, ekki bara í sjávarútvegi sem hefur verið býsna öflugt heldur í sem flestum greinum til að breikka undirstöðuna undir atvinnulífið á Íslandi.