143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:04]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að eiga orðastað við hv. þm. Guðbjart Hannesson. Ég hef haft óvæntan tíma undanfarið sem var áætlaður í annað en svo féll ýmislegt niður sem gaf mér færi á að rýna meðal annars í ræður nokkurra núverandi stjórnarliða í tengslum við umræður um bæði fjáraukalög og fjárlög, m.a. hv. formanns fjárlaganefndar. Í ljósi þess að oft hefur verið talað um gæluverkefni fyrrverandi ríkisstjórnar, sérstaklega þegar kemur að fjárfestingaráætluninni, langar mig að spyrja hv. þingmann nokkurs. Eins og rætt hefur verið örlítið í dag er gerð tillaga í forsætisráðuneytinu um flutning stofnana og kemur fram í áliti okkar í minni hlutanum að þar er töluvert aukið framlag, sem er í sjálfu sér góðra gjalda vert, upp á rúmar 165 milljónir. Margar aðrar ríkisstofnanir gætu væntanlega nýtt sér slíkan bónus, en það sem vekur athygli er að það eru engin rök, a.m.k. engin fagleg sem við í minni hlutanum höfum séð, sem réttlæta þennan flutning verkefna. Áhugasvið ráðherrans eitt saman virðist ráða för. Hið sama á við um Hagstofuna.

Kannast hv. þingmaður við eitthvað slíkt, t.d. hjá fyrrverandi ríkisstjórn, að málefni hafi verið flutt svona á milli? Mig langar líka að spyrja hv. þingmann um ráðherrabauk eins og virðist vera varðandi flutning eða öllu heldur sjóði sem búnir eru til. Það eru búnir til nýir fjárlagaliðir þar sem flutt er á milli (Forseti hringir.) heilmikið fé af liðum sem annars yrðu ekki fullnýttir innan tiltekins málaflokks.