143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:11]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað hefur ný ríkisstjórn leyfi til að breyta fjárlagaliðum, þó þannig að þá eru afturkallaðir einhverjir ákveðnir liðir sem ekki er búið að ráðstafa en í staðinn kemur bara sjálfstæður nýr fjárlagaliður. Það sem er athugunarvert hér er að verið er að setja fjárveitingar í liði í fjárauka 2013 sem komu ekkert til ráðstöfunar eða framkvæmda á árinu 2013, þ.e. menn eru að búa sér til einhverja liði sem á að ráðstafa í framtíðinni. Mér finnst grundvallaratriði að menn séu ekki að leika sér að þessu, þá væri eðlilegra að skera niður og draga saman í fjáraukanum 2013 og koma svo með nýjan sjálfstæðan lið í fjárlagafrumvarpið fyrir 2014.

Það er auðvitað forvitnilegt að fylgjast með hvernig þessi 5% niðurskurður — sem birtist í fréttatíma Ríkisútvarpsins í kvöld eins og kom fram hjá hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur — verður framkvæmdur. Á hverjum mun hann bitna? Hvað verður dregið niður? Eru þetta ekki bara alveg klár skilaboð um að ráðuneytum verði ekki aftur fjölgað? Það hefur hangið í loftinu og einhver talað um að hér kæmi eitt ráðuneyti í viðbót, hér kæmi aftur umhverfisráðuneyti. Ég skil þetta þannig að menn bæti því ekki við ef þeir ætla að ná 5% hagræðingu í stjórnsýslunni. Það verður gaman að fylgjast með því.

Það sem er athyglisvert er að á sama tíma og skorið er niður um 5% er verið að útvista verkefnum. Það er verið að kaupa ráðgjöf, m.a. um skuldaniðurfellinguna. Við erum búin að sjá þær tölur, það er verið að vinna ráðgjafarvinnu sem kemur inn í fjárlögin í sambandi við húsnæðismálin. Því er útvistað og það er tekinn sérstakur peningur í það. Að einhverju leyti má skilja það svo að það eigi að stofna nýja deild í sambandi við styttingu á framhaldsskólanum og ýmis úrræði varðandi hann.

Þetta er nýtt form, þ.e. að útvista Stjórnarráðinu að einhverju leyti. Þegar maður veit hversu lítil stjórnsýslan er fyrir (Forseti hringir.) í landinu held ég að menn verði að fara varlega í þessar aðgerðir.