143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:28]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég og hv. þm. Pétur Blöndal erum sammála um margt en þó ekki allt og það er eitt sem mig langar að nefna sem okkur greinir kannski á um. Það er þessi liður sem ég sagði að væri á fjárlögum Svía, að því er ég best vissi, og bæri heitið ýmis útgjöld. Í fjárlögum í dag hefur verið litið á þetta sem einhvers konar ráðherrapott, fjármuni sem ráðherrar hafa haft til að setja í einstök verkefni víðs vegar um landið.

Það er einmitt það sem ég er að segja að við verðum að breyta, þannig að þessi liður sé raunverulega vegna ófyrirséðra útgjalda en sé ekki notaður eins og hann hefur verið notaður. Ef okkur tekst það, og við höfum hann að sjálfsögðu hóflegan, held ég að við getum með einum eða öðrum hætti komið í veg fyrir að við sjáum útgjaldatillögur í miklum mæli í fjáraukalögum, og ég held að vilji sé til að breyta.

Ef okkur tekst þetta held ég að við náum þeim nauðsynlega aga sem við hv. þingmaður erum sammála um að þurfi að ná. Ég mundi reyndar gjarnan vilja ræða fleiri atriði við hv. þingmann bara í betra tómi, kannski undir fjárlagaumræðunni, en það snýr að hugmyndum hans um hvernig við getum komið í veg fyrir hringamyndanir eða kennitöluflakk fyrirtækja, að menn geti stofnað til einhverra vafninga, fært eignir á milli fyrirtækja, myndað hagnað og annað. Ég veit að hv. þingmanni eru þau málefni mjög hugleikin og hann hefur komið með margar góðar tillögur í þá veruna. Ég held að við ættum við gott tækifæri að ræða það hér á Alþingi.