143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[22:00]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst athyglivert að hv. þingmaður skyldi nefna orðið „hagræðingarhópur“, sem hefur mikið verið talað um hér í haust og maður átti kannski von á því að fram kæmu mótaðri tillögur frá þeim hópi en raunin varð eftir allt það umtal sem hann fékk. Maður hefði búist við að fá eitthvað meira frá honum en lista sem var um margt gamalkunnar hugmyndir um hverju mætti breyta í ríkisrekstrinum. Hv. þingmaður skýrði frá því að ekki sé nýlunda að þingmenn úr stjórnarflokkunum, aðrir en þeir sem eru í fjárlaganefnd, fjalli um ríkisfjármálin. Það hafi verið gert áður. Hann getur kannski skýrt nánar hvernig því starfi hefur verið háttað.

Mig langar líks að spyrja hann hvað honum þyki um að einn þingmaðurinn úr þessum hópi sé síðan færður upp í Stjórnarráð og sitji nú við hægri hönd forsætisráðherra og aðstoði hann.

Svo er það hvort eitthvað sem var á hinum langa lista mætti betur fara, hvort hann sjái þess einhvers staðar stað í til dæmis fjáraukalagafrumvarpinu, því að nú var þessi nefnd skipuð í júní, held ég, eða júlí og lét mikið af því að hún væri að störfum og ætlaði að skila hugmyndum um miðjan ágúst, minnir mig að það hafi verið.