143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[22:14]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það verður fróðlegt að heyra aftur um byggðamál og fjarskiptasjóð því að við nefndum þau atriði. Það má líka spyrja: Hver bjóst ekki við því að greidd yrði desemberuppbót á atvinnuleysisbætur eftir þessi fjögur ár? Áður hef ég eytt töluvert löngum tíma í að rökstyðja af hverju Landspítalinn átti að fá 125 millj. kr. og líka hvernig staðið var að því, eins þegar Fasteignir ríkisins hækkuðu hlut heilbrigðisstofnana, að bæta það upp með því annaðhvort að taka ákvörðun um að Fasteignir ríkisins fengju ekki að hækka álögurnar eða mæta því með útgjöldum til heilbrigðisstofnana eins og fyrrverandi ríkisstjórn ákvað að gera.

Það er líka hérna atriði sem ég tók eftir í breytingartillögunum frá meiri hluta fjárlaganefndar sem snýr að ýmsum löggæslu- og öryggismálum, varnarmálum. Gerð er tillaga um 265 millj. kr. fjárheimild til að ljúka rafkerfisbreytingum á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Á móti þeirri fjárheimild færist á tekjuhlið ríkissjóðs innborgun af bankareikningum sem áður voru í eigu Ratsjárstofnunar. Í sjálfu sér geri ég enga athugasemd við að menn færi þarna til en ég velti þessu fyrir mér og veit svo sem ekki hvort hv. þingmaður hefur heyrt röksemdina í kringum þetta. Aftur erum við komin fram í desember. Er þetta búið? Eru menn búnir að draga á þennan reikning og fyrst núna er verið að færa peningana til? Eða eru menn að ráðstafa hér fyrir fram inn í fjárlög á næsta ári? Það virðist vera býsna algengt í þeim tillögum sem hér koma fram að menn eru að skapa sér svigrúm fyrir næsta ár með einhverjum hætti, eins og hv. þingmaður gerði ágætlega grein fyrir í ræðu sinni, til þess að forðast halla á fjárlögum á næsta ári og reyna því að koma meiru yfir á þetta ár.