143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[22:16]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal reyna að bregðast við því sem ég get brugðist við á þeim tíma sem ég hef. Ég ætla ekki að hætta mér út í það síðasta sem hv. þingmaður nefndi því að ég hef ekki farið nógu rækilega í saumana á því til að hafa svör við því.

Mig langar að fara aðeins yfir tillögur minni hlutans. Ég held að þær séu allar þess eðlis að þær megi kallast ófyrirséð útgjöld.

Um fjarskiptasjóð hefur verið sérstaklega fjallað og þá stöðu sem þar er uppi vegna 4G-útboðsins og þau áhrif sem það mun hafa á aðgerðir til að bæta netsamband um allt land. Ég held ég geti sagt að óháð því fyrir hvaða kjördæmi við sitjum á Alþingi, ég sem þingmaður Reykjavíkurkjördæmis eða hv. þm. Guðbjartur Hannesson fyrir víðáttumikið landsbyggðarkjördæmi, þá getum öll verið sammála um að við þurfum að byggja landið okkar allt. Við þurfum öfluga höfuðborg og við þurfum öfluga byggð um allt land. Ein forsenda fyrir því í nútímasamfélagi að geta staðið undir slíku er að sjálfsögðu öflugt netsamband um allt land. Það eru forsendur fyrir góðum búsetuskilyrðum. Burt séð frá því hvaðan við komum held ég að við eigum öll að geta verið sammála um að það er mjög þýðingarmikið atriði. Sveitarfélög um landið kvarta og lýsa einmitt áhyggjum sínum út af þessu. Þess vegna er mjög bagalegt að markaðar tekjur upp á 195 milljónir skuli ekki renna til fjarskiptasjóðs í þetta verkefni. Ég tel að það hafi verið ófyrirséð að það yrði tekið út.

Eins er með Landspítalann og heilbrigðisstofnanirnar. Þar urðu útgjöld sem var gert ráð fyrir að yrðu í fjáraukalögum. Það var sömuleiðis ófyrirséð að þau kæmu ekki inn í fjáraukalagafrumvarpið, ég tala nú ekki um atvinnuleysisbæturnar. Það var algerlega ófyrirséð að núverandi ríkisstjórn ætlaði að taka desemberuppbótina af atvinnuleitendum.

Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að tillögur minni hlutans (Forseti hringir.) hljóti brautargengi við afgreiðslu fjáraukalaga.