143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[22:46]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, ég tel að það verði aldrei hægt að setja inn á kosningaári einhverja ákveðna tölu vegna ráðherraskipta. Það getur aldrei gengið upp að sitjandi ríkisstjórn setji inn tölur vegna þess í fjárlög sem samþykkt eru í desember árið á undan.

Þess vegna eru fjárreiðulög með þeim ákvæðum sem þar eru til að taka á svona óvæntum atvikum eins og ég gat um áðan, eins og veirusýkingum á Landspítala sem enginn gat reiknað með, fjölgun aðstoðarmanna og biðlaunum fráfarandi ráðherra. Þetta er allt saman eðlilegt að sé sett þarna inn.

Þess vegna vil ég ítreka það sem ég sagði hér áðan, virðulegi forseti, að það hefur orðið mikil breyting til batnaðar varðandi fjárlög sem er auðvitað mjög mikið ánægjuefni. Okkur er að takast betur og betur að vinna þau, þrátt fyrir það að við búum í þessu mikla verðbólguþjóðfélagi með krónu sem skoppar eins og korktappi eftir ýmsum sveiflum — það fer bara eftir því hvaða stórfyrirtæki þarf að borga mikið af sínum lánum til útlanda og hvað þarf að safna miklu af gjaldeyri saman og í hvað langan tíma, þannig að krónan fellur og verðlag hækkar. Það er í raun og veru með ólíkindum, ef við tökum t.d. þau fjárlög sem við erum að fjalla um núna fyrir árið 2013, hvað það er lítill munur á fjárlagafrumvarpi og endanlegri útkomu. Miðað við að undirbúningur þess hefst sennilega í mars árið áður, ætli það sé ekki eitthvað svoleiðis, ríkisstjórn gengur frá þessu í júlí, ágúst, stjórnarflokkarnir og svo er þetta lagt fram og unnið í þinginu eins og við þekkjum, þá er það undraverður árangur.

Mér finnst breytingarnar í þessum fjáraukalögum ekkert voðalega miklar og ítreka það sem ég sagði áðan, ég held að forustumenn ríkisstjórnarflokkanna séu að gera þetta miklu svartara en (Forseti hringir.) það mun verða og ég ætla að minnast þessara orða minna þegar við ræðum um niðurstöðu ríkisreiknings (Forseti hringir.) fyrir þetta og næsta ár.