143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[22:48]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að grípa á lofti þetta um að mæta útgjöldum vegna kosninga. Við nefnum í minnihlutaáliti okkar að við teljum að það megi horfa til reynslu undanfarinna kosningaára. Það kom fram hjá fjárlaganefnd þegar um þetta var spurt að það er í rauninni mismunandi túlkun eða vilji ráðuneyta. Fjármálaráðuneytið vill hafa það á fjáraukalögum á meðan bæði Ríkisendurskoðun og forsætisráðuneytið hefðu viljað áætla fyrir þessu að einhverju leyti.

Við hv. þingmaður erum bæði áhugafólk um málefni Vegagerðarinnar, þar er ég byrjandi en hins vegar er hv. þingmaður fyrrverandi samgönguráðherra og þekkir þann málaflokk því afskaplega vel, að ég tel. Í umræðum hjá nefndinni hafa komið fulltrúar Vegagerðarinnar og eins ráðuneytisins og þar hefur verið tekist svolítið á um stöðu Vegagerðarinnar, þ.e. þennan 16 milljarða kr. halla á henni eða fyrir fram greiddar markaðar tekjur, og gert ráð fyrir að hún skili til baka tæpum 1,3 milljörðum af honum. Nú er hins vegar líka talað um að hallinn geti orðið hátt í 2 milljarðar á þessu ári.

Þingmaðurinn þekkir það eins og ég að hér er verið að færa á milli liða, þ.e. það er talað um afgangsfjárheimildir upp í þennan 2 milljarða væntanlega halla af viðhaldi. Auðvitað vekur það spurningar um hvort til séu peningar á viðhaldsreikningi Vegagerðarinnar og því langar mig að spyrja þingmanninn (Forseti hringir.) hvort hann telji þetta eðlilegt í ljósi þess (Forseti hringir.) að viðhaldi er ábótavant.