143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[22:58]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Full ástæða er til að vekja máls á því að hér er hvorki formaður né varaformaður fjárlaganefndar sem er nefndin sem ber málið uppi. Það kemur kannski ekki á óvart í ljósi þess að menn hafa þurft að funda mikið í dag. Ærin tilefni hafa verið til þess, bæði fjölmiðlaumfjöllun og ýmsar uppákomur og ítrekaðar hreyfingar á tölum í beinni útsendingu, menn þurfa væntanlega að ráða ráðum sínum.

Ég spyr eins og hv. þm. Helgi Hjörvar: Hvað hyggst forseti halda þessum fundi hér lengi áfram? Nú er klukkan að ganga tólf á þessum drottins degi. Um leið spyr ég: Hvar er formaður fjárlaganefndar? Ætlar hann að vera viðstaddur umræðuna?