143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[23:05]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tel rétt að koma hér upp aftur vegna þess að það er auðvitað svo, og rétt hjá þingmönnum, að það geta líka verið þannig aðstæður að fullkomlega eðlilegt sé að ýmsir aðrir þingmenn séu viðstaddir umræðu um fjárauka. Það á til dæmis sérstaklega við í þeim þætti sem ég hafði ætlað að helga meginmál minnar ræðu, sem því miður úr því sem komið er eru ekki líkur á að komist að í kvöld, sem eru furðulegir leikir hæstv. menntamálaráðherra með fé sem ætlað var til að koma með úrlausn fyrir atvinnulaus ungmenni, fé sem við börðumst fyrir að koma til ungmenna sem höfðu enga von og enga leið um framgang í menntakerfinu. Það á að taka þá peninga upp á hundruð milljóna og setja í einhver ákveðin gæluverkefni ráðherrans. Þetta er falið inn í breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar. Meiri hlutinn sér meira að (Forseti hringir.) segja ástæðu til að atyrða ráðherrann fyrir verklagið(Forseti hringir.) en hefur samt lyst á því að bera sullumbullið á borð fyrir (Forseti hringir.) þingheim.