143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[23:07]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tel að rétt sé að geta þess í þessu samhengi, vegna þess að í raun og veru eru að gerast mjög sérkennilegir hlutir eins og nokkrir þingmenn hafa nefnt, að svo virðist sem breytingartillögur alls meiri hluta fjárlaganefndar við fjáraukalagafrumvarp ríkisstjórnarinnar séu orðnar stefnumörkunarskjal í menntamálum af því að þar eru boðaðar aðgerðir í framhaldsskólum sem lúta að sérstökum skipulagsbreytingum til að stytta námstíma til stúdentsprófs.

Ég vil geta þess að mér finnst full ástæða til að kanna möguleikann á því að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra sé hér á staðnum til þess að gera grein fyrir stefnu sinni í þeim málum. Minnihlutafulltrúar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd hafa óskað eftir því að ráðherrann komi á fund nefndarinnar og geri grein fyrir forsendum og bakgrunni þeirrar stefnu sem hann hyggst innleiða með þessum mjög svo undarlegu krókaleiðum.