143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[23:10]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er margt sem hægt er að ræða í kringum og um þetta frumvarp til fjáraukalaga. — Virðulegi forseti. Það má gjarnan leiðrétta klukkuna hjá mér.

(Forseti (ÞorS): Forseti skal sjá til þess að svo verði gert.)

Virðulegi forseti. Já, það er margt sem hægt er að ræða um þetta frumvarp. Eins og ég nefndi áðan þegar fundarstjórn forseta var til umræðu er auðvitað bagalegt hversu seint frumvarpið kemur fram sem gerir að verkum að umræðan hér er á nokkrum hlaupum og kannski gefst ekki nægur tími til þess að ræða ýmsa liði sem þó er full ástæða til að ræða.

Það sem mig langar að ræða sérstaklega er það sem ég kom lítillega að áðan í andsvari og lýtur að því hlutverki fjáraukalaga að koma til móts við ófyrirsjáanlega hluti að einhverju leyti, nýja hluti sem metnir eru svo brýnir að taka verði á þeim með einhverjum hætti í fjáraukalögum. Ég tek það fram að mér finnst þróunin hafa verið í rétta átt í þessum málum undanfarin ár, þ.e. það hafi dregið heldur úr umfangi tillagna í fjáraukalögum. En það eru nokkrir hlutir sem ég tel mikilvægt að fá skýringar við og ástæða er til að ræða.

Sá fyrsti er liður í frumvarpinu sjálfu og kallast Græna hagkerfið og verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa o.fl. Stórt nafn á lið. Bent er á þennan lið í nefndaráliti minni hlutans. Við sem vorum hér á síðasta kjörtímabili munum mætavel að unnin var gríðarleg vinna í tengslum við græna hagkerfið. Þar var að störfum nefnd sem gerði ítarlegar skýrslur um það hvernig við gætum byggt upp grænna hagkerfi á Íslandi. Þetta er auðvitað ekki séríslensk hugmynd, heldur er eitthvað sem hefur verið til umræðu í nánast öllum löndum Evrópu. Við sem höfum tekið þátt í norrænu samstarfi vitum að þar hefur ofuráhersla verið lögð á það sem hefur verið kallað grænn vöxtur, grænt hagkerfi og er lykilatriði í því hvernig við ætlum að byggja upp atvinnulíf á tímum þar sem við gerum okkur grein fyrir því að náttúrulegar auðlindir eru takmarkaðar. Því skiptir verðmætasköpun úr því sem unnið er með svo gríðarmiklu máli.

Í frumvarpinu sjálfu er sem sagt lagt til að þeir fjármunir sem ætlaðir voru í græna hagkerfið falli niður. Það er liður sem heitir Græna hagkerfið, ýmis verkefni. Þar er bent á það sem alls staðar er vísað í í fjárlaga- og fjáraukalagavinnu núverandi ríkisstjórnar, að þetta hafi átt að fjármagna með tekjum sem áttu að standa undir fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar. Ég ætla ekki að nota mínar dýrmætu mínútur hér í að diskútera þá tekjuöflun sem ég tel að núverandi ríkisstjórn hafi afsalað almenningi, til að mynda með því að lækka sérstakt veiðigjald. Við erum búin að ræða það oft og eigum eftir að ræða það oft. Ég ætla ekki að nota tímann í það hér.

Það sem mér finnst hins vegar sérstakt er að þessi liður fellur niður eins og svo margir aðrir og síðan er tekinn upp þessi nýi liður sem ég nefndi áðan, Græna hagkerfið og verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa o.fl. Á þennan nýja fjárlagalið er sótt um 165,5 millj. kr. til verkefna sem, eins og segir í frumvarpinu, með leyfi forseta, „tengjast græna hagkerfinu og verkefnum um vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa o.fl.“

Þegar lesið er í liðinn er gert ráð fyrir því að Þjóðminjasafn Íslands og Minjastofnun Íslands, en þessar stofnanir voru fluttar yfir á árinu til forsætisráðuneytis, fái sérstaka aukafjárveitingu, annars vegar til geymslumála og hins vegar til nýrra verkefna. Nú þekki ég ágætlega til þessara stofnana sem áður heyrðu undir mennta- og menningarmálaráðuneytið og ég vil segja strax að ég dreg enga dul á það að þessar stofnanir geta vel nýtt þessa fjármuni. Það hefur verið brýnt að taka á geymslumálum Þjóðminjasafnsins vegna þess að þó að safnið hafi ágætar geymslur í Vesturvör glímir það eins og auðvitað fleiri söfn við gríðarlegt magn minja sem þarf að geyma með viðunandi hætti og það skiptir máli að taka á því.

Minjastofnun er hér lögð til 70 millj. kr. aukafjárveiting. Hún er sameinuð stofnun Fornleifaverndar ríkisins annars vegar og húsafriðunarnefndar hins vegar. Það er alveg ljóst að þegar Fornleifavernd ríkisins var sett á laggirnar var farið af stað af vanefnum. Ég held að þegar við lítum þau rúm tíu ár aftur í tímann sem stofnunin hefur verið starfandi megi sjá að hún hefði þurft meira fjármagn til þess að geta sinnt þeim verkefnum sem við ætlumst til að hún sinni, sem eru um land allt. Þar hefur verið vandi, ég dreg enga fjöður yfir það, til að mynda í því að annast minjavörslu.

Síðan stendur hér um þennan ágæta lið að líka sé ráðgert að veita fé til brýnna húsafriðunarverkefna. Við erum hins vegar með húsafriðunarsjóð sem á að annast brýn húsafriðunarverkefni, bara svo allir átti sig á því. Það eru fjármunir til. Þeir eru í sérstökum sjóði sem lýtur faglega skipaðri stjórn. Því finnst mér sérkennilegt að hér sé verið að taka lið og kalla hann græna hagkerfið og alls konar annað og þar er í raun og veru verið að veita menningarstofnunum aukafjárveitingar til að sinna verkefnum sínum, annars vegar til menningarstofnana sem ég tek undir að geta svo sannarlega nýtt þessa fjármuni og hins vegar að setja einhvern pott til forsætisráðuneytisins í brýn húsafriðunarverkefni sem samt er ekki hluti af lögbundnum húsafriðunarsjóði. Ég sé raunar ekkert um grænt hagkerfi í lýsingunni á þessum lið.

Það kann að vera að það komi fram, þetta kemur hið minnsta fram í nefndaráliti minni hlutans, ég sé ekki neina athugasemd gerða við þetta í nefndaráliti meiri hlutans, en ég velti því fyrir mér hvort hv. fjárlaganefnd hafi ekki fjallað um það hvort eðlilegra hefði verið í þessu tilfelli að fella hreinlega niður liðinn Græna hagkerfið og leggja til, og hafa það upp á borðum, aukafjárveitingar til þessara tveggja stofnana í staðinn fyrir að ríkisstjórnin geri það að tillögu sinni að leggja niður liðinn Græna hagkerfið, stofni annan lið sem heiti Græna hagkerfið og alls konar og þar sé ekki einni krónu veitt í græna hagkerfið en aukafjárveitingar settar í ríkisstofnanir.

Eins og ég hef margítrekað tel ég þessar stofnanir svo sannarlega þurfa á þessum fjármunum að halda. En þetta vekur auðvitað spurningar um málaflokkinn og við ræddum það á sumarþingi þegar við fjölluðum um stöðu þjóðmenningar og menningarmála almennt í stjórnskipaninni. Eins og okkur rekur minni til var þessi málaflokkur, þjóðmenning, færður frá mennta- og menningarmálaráðuneyti yfir til forsætisráðuneytis. Fyrir því voru í sjálfu sér aldrei færð nein rök. Það kom fram ágætlega í sérstakri umræðu sem ég átti við hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra þar sem ég innti hann sérstaklega eftir því hvaða skilgreining á hugtakinu þjóðmenning hefði legið til grundvallar verkefnaflutningnum. Þetta var góð og málefnaleg umræða og hæstv. menntamálaráðherra, svo ég vitni til hans, með leyfi forseta, benti á að það væri hreinlega „of flókið mál“ að skilgreina þjóðmenningu, þetta hefði meira snúið að verkaskiptingu ráðherra sem hefði verið rædd í stjórnarmyndunarviðræðum. Síðan kom á daginn þegar forsetaúrskurðurinn var endurskoðaður að stofnanir sem fyrst voru fluttar yfir til forsætisráðuneytis, stofnanir á borð við Árnastofnun, fluttust svo til baka til mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Það vekur upp spurningar sem mér finnst áhugavert að velta upp af því hér erum við með frumvarp til fjáraukalaga og við erum að fást við það að forsætisráðuneytið er að taka á vanda stofnana sem hafa verið færðar undir ráðuneytið. Þá vil ég segja þetta: Ég er fylgjandi þeim sveigjanleika sem er í nýjum lögum um Stjórnarráðið. Reyndar voru margir í núverandi ríkisstjórn alfarið á móti þeim sveigjanleika og á móti þeim lögum. Gott og vel, ég er fylgjandi honum. Ég tel eðlilegt að við lítum til að mynda til Norðurlanda sem við berum okkur gjarnan saman við, Stjórnarráðið eigi að vera sveigjanlegt og það eigi að vera hægt að færa verkefni til án þess að það sé mikið mál. En þá þurfum við líka að byggja inn í okkar fjárlagavinnu og í fjáraukalagavinnu hvernig það er gert. Þegar þessi verkefni voru flutt yfir kom fram að það væri gert á þeim forsendum að hugur ríkisstjórnarinnar væri að leggja sérstaka áherslu á þjóðmenningu. Þegar forsetaúrskurðurinn lá fyrir og honum hafði verið breytt og stofnanir fluttar fram og til baka áttuðum okkur á því að það var einmitt þetta sem forsætisráðuneytið vildi leggja sérstaka áherslu á. Gott og vel.

Við getum farið í alls konar teorískar spurningar um það hvaða skilgreiningar liggja til grundvallar. En í þessari umræðu skiptir máli að spyrja: Af hverju leggur forsætisráðuneytið ekki bara til aukafjárrveitingar til þessara stofnana og segir: Það er mikilvægt af því við viljum leggja sérstaka áherslu á þjóðmenningu? Af hverju að fara í þennan feluleik, skella þessum stofnunum undir einhvern lið sem á ekkert skylt við þær og segja það bara hreint út ef ekki á að setja neitt meira í græna hagkerfið? Það er spurning sem ég fæ ekki séð að hafi verið svarað.

Ég sé að minni hlutinn gerir hins vegar athugasemdir við þetta í nefndaráliti sínu. Hann bendir á að sá hluti liðarins sem snertir ekki þessar tvær stofnanir sé 15,5 milljónir og hann lúti, með leyfi forseta, „væntanlegu frumvarpi um verndarsvæði í byggð þar sem gert er ráð fyrir ráðningu sérfræðings og ráðgjafa til að sinna þessum verkefnum.“

Ég man ekki eftir því að hafa séð fjárveitingar sem eiga að standa undir væntanlegum frumvörpum. Ég veit ekki betur en hér séu smíðuð frumvörp, þeim fylgi kostnaðarmat og þeim fylgi fjárveitingar. Þannig að ég hlýt að gera athugasemd við þessi vinnubrögð sem mér finnst því miður bera því vitni að þessi ákvörðun um verkaskiptinguna, svo ég vitni aftur í hæstv. menntamálaráðherra, „fór fyrst og síðast fram í stjórnarmyndunarviðræðum“. Þar var ekki verið að leita endilega álits fagmanna eða leita eftir samráði. Gott og vel. Svona finnst mér ekki eiga að standa að flutningi verkefna þótt ég sé almennt fylgjandi því að hægt sé að flytja þau til. Þegar fjárveitingar flytjast til finnst mér svo sannarlega ekki að það eigi að gerast með þessum hætti.

Ég gæti talað lengi um þetta mál enda mikil áhugakona um þjóðmenningu, en ég ætla ekki að gera það. Ég segi bara að mér finnst okkur gert erfitt fyrir sem viljum styðja við þessar stofnanir. Okkur er gert mjög erfitt fyrir þegar tillagan er lögð fram með þessum hætti því mér finnst hún hreinlega dálítið subbuleg. Ef við viljum almennileg vinnubrögð í fjárlagavinnu og fjáraukalagavinnu þá er þetta dæmi um subbuskap í vinnubrögðum.

Önnur tillaga sem hér kemur fram í breytingartillögunum, ekki í sjálfu frumvarpinu, er einkennileg. Þar er verið að sameina 300 millj. kr. fjárveitingar af öðrum liðum sem heyra undir menntamálaráðuneyti, þ.e. liði sem hafa snúist um nýja aðalnámskrá, nýja menntastefnu, framhaldsfræðslu og fleira. Þetta vekur furðu mína. Í skýringum með tillögunni er vitnað í minnisblað frá menntamálaráðuneytinu þar sem kemur fram, með leyfi forseta:

„Annars vegar þurfi að halda áfram innleiðingu laga og nýrrar aðalnámskrár þar sem áhersla sé lögð á styttingu náms, læsi og annan vanda sem við skólanum blasi. Hins vegar þurfi að leita leiða til að ná jafnvægi í rekstri skólanna og auka skilvirkni kerfisins.“

Þetta er nú vægast sagt víð skilgreining á því verkefni sem er fram undan, þó að vafalaust sé margt hægt að gera í öllu þessu.

Þarna kemur fram að verið sé að vinna að stefnumótun og unnið sé að gerð hvítbókar. Það hefur margoft komið fram að verið sé að vinna að henni. En er rétt að við séum í fjáraukalögum að leggja saman aðra liði í óskilgreinda stefnu sem kemur bara hér fram í texta meiri hlutans? Það kemur fram í texta meiri hlutans að þessi stefna sé í mótun. Það er þegar búið að ákveða fjármagn í þetta og þeir eru teknir af öðrum liðum.

Nú ætla ég alls ekki að gerast dómari í því hvað kemur út úr þessari stefnumótun og vafalaust kemur þar margt gott fram, en þetta er líka til marks um það sem ég kalla ákveðinn subbuskap í vinnubrögðum. Þarna er verið að taka saman ónýttar fjárheimildir, skella þeim í einn lið til að nýta þær á þessu ári. Til hvers? Til að þurfa ekki að gera nýja tillögu í fjárlögum um fjármuni til að fylgja þessum verkefnum eftir á næsta ári. Þannig horfir það við mér því ef stefnumótunin liggur ekki fyrir og hvítbókin hefur ekki verð kynnt, hvað ætlar hæstv. menntamálaráðherra að gera við 300 millj. kr. til að fylgja henni eftir á þessu ári, árinu 2013? Hvers konar vinnubrögð eru þetta, virðulegi forseti?

Ég er fylgjandi auknum fjármunum í menntakerfið en ég vil vita í hvað þeir eiga að nýtast. Ég vil að hæstv. ráðherra komi hérna og lýsi stefnunni og segi: Þetta er mín stefna, þess vegna óska ég eftir 300 millj. kr. til þess að fylgja henni eftir. Þá vil ég geta tekið upplýsta ákvörðun um það hvort ég ætla að styðja hæstv. ráðherrann eða ekki. Ég vil ekki fá þetta í fjáraukalagafrumvarpi sem er lagt fram nánast í gær, í lok nóvembermánaðar, og síðan kemur það í breytingartillögu við frumvarpið að við séum að taka allt aðra liði, skella þeim í einn til þess að fylgja eftir stefnumótun sem ekki hefur verið unnin. Því þessa fjármuni væntanlega á að nota á þessu ári. Hver er þá ætlunin? Ætlar hæstv. ráðherra og ráðuneytið að geyma fjármunina fram á næsta ár en ekki fella heimildina niður til þess að nota þá til að innleiða stefnu sem enn hefur ekki verið mótuð?

Virðulegi forseti. Þetta vekur spurningar af því að ég veit að í stjórnarliðinu eru margir áhugamenn um bætt vinnubrögð við fjárlagagerð, það veit ég eftir að hafa unnið með mörgum þessara ágætu hv. þingmanna á undanförnum fjórum árum. Oft náðust á síðasta kjörtímabili mjög góðar og uppbyggilegar umræður um það. Vafalaust hafa mörg mistök verið gerð á liðnum árum og áratugum í því hvernig við færum hluti til bókar í fjárlögum, hvernig tillögur eru settar fram. Það þýðir hins vegar ekki alltaf að vera að horfa til baka. Það þýðir ekki að vera alltaf að segja: Þetta var nú gert einu sinni og þar var einhver sem þú þekktir sem stóð að því og þess vegna ætlum við að gera þetta rosalega illa líka. Sá málflutningur gengur bara ekki upp, virðulegi forseti.

Þess vegna segi ég: Við viljum ekki sjá svona sjúskuð vinnubrögð. Ef þetta snýst um að það megi ekki auka útgjöldin í fjárlagafrumvarpinu út af markmiðinu um hallalaus fjárlög þá er bara eins gott að segja það upphátt. Þá finnst mér eins gott að stjórnarmeirihlutinn segi upphátt: Nei, við ætlum að svindla aðeins, við ætlum að taka liði saman til þess að koma betur út á blaði. Ef það eru einhverjar aðrar skýringar á þessu væri gott að heyra þær. Því miður lítur þetta nefnilega svona út. Því miður lítur það þannig út að hæstv. ráðherrann hafi kannski reynt að fá fjármagn við fjárlagagerðina til að vinna að stefnunni og honum hafi verið sagt: Nei, þú verður að skítamixa þetta. Því miður lítur það þannig út, virðulegi forseti. Mér finnst það leiðinlegt. Mér finnst það ekki góð vinnubrögð. Það er umhugsunarefni.

Þetta eru bara nokkrar spurningar og lúta fyrst og fremst að vinnulagi.

Að lokum vil ég hins vegar gera að umtalsefni lið sem ég nefndi áðan og kemur fram í nefndaráliti minni hlutans þar sem bent er á samþykkt fyrri ríkisstjórnar um að leggja fé til Landspítalans vegna óvæntra atburða sem urðu þar á þessu ári. Svo ég vitni í nefndarálit minni hlutans, með leyfi forseta:

„Óvenjuskæðir faraldrar gengu yfir á sama tíma: inflúensa, nóró-sýkingar og RSV-sýkingar. Dagar sem hafa þurfti sjúklinga í einangrun voru ríflega tvöfalt fleiri en í meðalári. Starfsfólk spítalans veiktist einnig og voru veikindaforföll þess 30% tíðari en ársmeðaltal 2012.“

Virðulegi forseti. Ég hlýt að spyrja: Hvað veldur því að samþykkt fyrri ríkisstjórnar — í ljósi þess að hér eru inni samþykktir frá fyrri ríkisstjórn, jafnlaunaátakið er nærtækt dæmi — gengur ekki í gegn og það er minni hlutinn sem leggur fram þessa tillögu? Ég trúi ekki öðru en að hún verði samþykkt, tillaga minni hlutans um að bæta Landspítalanum upp það sem óneitanlega hljóta að teljast ófyrirsjáanlegir eða ófyrirséðir atburðir. Við höfum mikið rætt um stöðu Landspítalans og að sjálfsögðu viljum við helst að staða hans sé þannig að hann geti tekist á við slíkar aðstæður.

Ég ætla heldur ekki að fara að kafa ofan í fortíðina og þann halla sem Landspítalinn var því miður með fyrir hrun og þær erfiðu aðstæður sem hafa þar verið í raun og veru allt frá aldamótum. En ég held að hv. þingmenn hljóti að sameinast um að það sé eðlilegt að fylgja þessari samþykkt fyrri ríkisstjórnar enda tel ég að annað væri töluverð breyting á því hvernig við meðhöndlum þær. Það er auðvitað mjög einkennilegt ef við lítum svo á að þær samþykktir sem gerðar eru á kosningaári séu ómark og komi ekki til framkvæmda. Á sama hátt og ég tel eðlilegt að við gerum þá kröfu til ríkisstjórna sem sitja á kosningavetri að þær fari ekki hamförum í fjárútlátum eða útgjaldatillögum hljótum við líka um leið að ætlast til þess að það sem þar er samþykkt standi.

Virðulegi forseti. Ég reikna með því að þessi tillaga komi til atkvæða. Vonandi þegar umræðunni vindur fram fæ ég einhver svör við vangaveltum og spurningum þeim sem ég hef sett fram, annars vegar um þennan lið á sviði menntamálaráðuneytisins og síðan skilgreininguna á græna hagkerfinu og alls konar.