143. löggjafarþing — 33. fundur,  10. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[23:35]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni skýringarnar. Ef við gefum okkur það að skýringar ráðuneytisins haldi, um að 240 milljónir af þessum átakspeningum séu ekki að renna út, vaknar spurningin: Hvernig er þeim best varið út frá markmiðinu um að auka námsframboð fyrir ungt fólk sem á erfitt með að fóta sig á vinnumarkaði?

Þá kemur aftur að því að þessi ríkisstjórn heggur alls staðar á sama tíma. Í fjárlagatillögum að öðru leyti er gert ráð fyrir að leggja af öll vinnumarkaðsverkefni fyrir ungt fólk, öll, það er verið að slátra þeim öllum. Peningar úr Atvinnuleysistryggingasjóði inn í þessi verkefni fara ekki inn í þau. Nýi starfsmenntasjóðurinn sem hv. þingmaður nefndi, upp á 300 milljónir, er sleginn af í fjárlögum fyrir næsta ár.

Skilaboð þessarar ríkisstjórnar til þess unga fólks sem er enn að reyna að fóta sig á vinnumarkaði eftir að hafa verið fórnarlamb brottfalls, eftir að hafa farið út á vinnumarkaðinn á góðærisárunum fyrir hrun og hefur ekki komist aftur í vinnu og á ekki að fá að komast inn í skólana, er að það eigi til langframa að vera læst úti.

Mér finnst gríðarlega dapurlegt að ekki skuli vera nokkur félagslegur skilningur hjá ríkisstjórnarmeirihlutanum á þessum alvarlega vanda, á þeirri stöðu að framhaldsmenntun er miklu minni hér en í öllum nágrannalöndunum og að við erum búin að glíma við það af veikum mætti í mikilli kreppu og að sjá menn láta sér detta í hug að klippa á alla þá vaxtarbrodda akkúrat núna finnst mér algerlega óskiljanlegt.