143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Hér á Alþingi megum við svo sannarlega víða gera betur eins og umræðan undanfarna daga um vinnu og skipulag hefur borið með sér. En sumt hefur verið gert af miklum myndugleik í gegnum tíðina og það er mér gleðiefni að geta greint frá góðu og samstilltu starfi þingkvenna á Alþingi og afrekum íslenskrar þjóðar, afrekum á sviði jafnréttismála.

Nýlega sóttu konur úr öllum þingflokkum ásamt kvenkynsráðherrunum okkar þremur ráðstefnuna Women in Parliaments Global Forum. Þar voru í fyrsta skipi konur frá öllum þjóðþingum heims kallaðar saman til fundar til þess að bera saman bækur sínar, til þess að læra, leiðbeina og hvetja áfram til jafnréttis og frelsis kvenna. Eins og við vitum er það sums staðar síður en svo sjálfgefið og enn er það svo að ekki fyrirfinnst það ríki í heiminum sem getur státað af því að réttindi kvenna séu virt og viðhöfð til jafns við karla. En Ísland er komið langt, við teljumst fremst á meðal þjóða á helstu mælikvörðum á jafnrétti kynjanna og á ráðstefnunni veittu ráðherrar okkar þeim viðurkenningum viðtöku af miklum myndugleik og með góðum ræðum.

Það var samt sem áður, herra forseti, blendin tilfinning að vera fremst í flokki en þó á þeim stað sem við Íslendingar erum á í dag. Við skulum ekki gleyma því að kynbundinn launamunur er enn staðreynd hér á landi, líka kúgun og kynbundið ofbeldi.

Tækifærin sem felast í því að vera leiðandi á alþjóðavísu í jafnréttismálum eru gífurleg. Þau eru auðlind sem til dæmis fyrirtæki okkar geta og þurfa að nýta sér í miklu meira mæli í því alþjóðlega umhverfi sem þau starfa í.