143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Það er gaman að fá að taka þátt í undirbúningi fjárlaga í fyrsta skipti. Það er mikil og skemmtileg vinna, eins og þingið allt. Þess vegna kemur mér svolítið á óvart að þingmenn tali um að núna fyrst sé eitthvað að gera. Það hefur verið mikið að gera hjá mér frá því að ég var kosinn á þing og verður vonandi áfram.

Það er líka mjög gaman að verða vitni að því að fjárlögin, eins og hér hefur komið fram, verði hallalaus sem er auðvitað mikill áfangi fyrir okkur öll og mikilvægt að við stefnum á að halda því.

Hér hefur komið fram að við ætlum að setja 4 milljarða inn í heilbrigðiskerfið. Mér finnst mjög mikilvægt að þeim peningum verði varið í jöfnum hlutföllum milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins. Landspítalinn þarf á auknu fé að halda og þangað verða settir töluverðir peningar. Við ætlum að lækka skatta um 5 milljarða, auka ráðstöfunartekjur fólksins, millistéttarinnar, um 5 milljarða og það er líka afar mikilvægt.

Við erum að koma til baka með 6 milljarða í skerðingum á öryrkja og eldri borgara. Við vitum öll hvað það skiptir miklu máli.

Það er líka ljóst að samkvæmt þeim hugmyndum sem fram eru komnar verður þróunaraðstoð á næsta ári 0,23% af landsframleiðslu, hún var á árunum 2011 og 2012 0,21%. Við stöndum okkur öll vel og er mikilvægt að halda góðum árangri til haga.