143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

lengd þingfundar.

[15:47]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég varð fyrir ákveðnum vonbrigðum með þá umræðu sem var hér í gær og ekki af því að hún væri eitthvað neikvæð eins og mér fannst hv. þingflokksformaður Framsóknarflokksins gefa í skyn í máli sínu áðan. Hér var einmitt sett fram málefnaleg gagnrýni. Ég velti til að mynda upp spurningum um það sem hv. þm. Árni Páll Árnason nefndi áðan, það hvernig á því stendur að í fjáraukalögum séu veittar heimildir til útgjalda sem þó eiga að fara fram á næsta ári, á sama tíma og fjárlög þessa árs eru í vinnslu, og að meiri hluti hv. fjárlaganefndar átelji þau vinnubrögð stórkostlega en ætli sér ekki að aðhafast meir.

Þó að vissulega hafi verið hér fulltrúar þingflokka Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og hv. formaður fjárlaganefndar í húsi saknaði ég þess að fá ekki svör við því hvers vegna ekki væri til að mynda tekið á þessu máli sem hlýtur að vekja upp ýmsar spurningar um það hvernig við fylgjum eftir fjárreiðulögum. Ég tek því undir með hv. þm. Helga Hjörvar, það voru ákveðin vonbrigði að vera hér í umræðu í gærkvöldi (Forseti hringir.) og fá litlar skýringar af hálfu stjórnarflokkanna.