143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

lengd þingfundar.

[15:56]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég er komin hingað til að gera grein fyrir atkvæði mínu því að ég samþykki það að fundur verði hér fram eftir kvöldi.

Ég vil aðeins slá á þær raddir sem hafa komið fram í dag um að formaður fjárlaganefndar hafi ekki verið staddur í þinghúsinu í gær. Ég var hér allt til loka fundarins. Það vill þannig til, virðulegi forseti, að í hádegisfréttum Stöðvar 2 og Bylgjunnar var spilað brot úr ræðu hv. þm. Helga Hjörvars þar sem hann kallaði eftir því að formaður fjárlaganefndar væri í þinghúsinu, en þegar myndbrotið er sýnt labba ég fram hjá púltinu þegar hv. þingmaður kallar eftir mér. Það er, virðulegi forseti, margt sem augað nemur ekki.

Ég kem að sjálfsögðu til með að fylgja þessu máli hér í allan dag og verð í þinghúsinu á meðan málið er á dagskrá. Stjórnarandstaðan þarf ekki að vera hrædd um annað, en það er ekki þar með sagt að ég verði á stöðugu spjalli eða í fyrirspurnatíma við (Forseti hringir.) stjórnarandstöðuna þó að ég sitji hér, hlusti og taki niður punkta frá stjórnarandstöðunni.